Þórsmerkurferð hjá nýliðum 2003

Þann 20. september sl. mættu nýliðar í B1 hressir, kátir og stundvísir í fyrstu ferðina sína. Lagt var af stað kl 07:05 (ath. nýtt met í stundvísi Flubba) og var ferðinni heitið austur að Skógum þar sem átti að ganga yfir Fimmvörðuháls.

Því miður var ekki hægt að ganga Fimmvörðuhálsinn vegna veðurofsa sem gekk yfir Suðurland þessa helgi og var því gengið um í Þórsmörk. Gengið var frá Langadal upp að Rjúpnafelli og þaðan í Bása. Þegar komið var að Krossá var farið úr skóm og sokkum og vaðið yfir.

Hallbjörn varð þá hetja hópsins í u.þ.b. fimm mínútur fyrir að vera stoð og stytta ballerínunnar. En skömmu síðar bætti Doddi um betur og sýndi meistaratakta og hetjudáð er hann stökk á eftir annarri stúlku sem hafði dottið í ána.

Þegar komið var að Básum komst ballerínan ekki hjá því að veita athygli ,,teygjuæfingum’’  félaga sinna, en æfingarnar áttu því miður lítið skylt við alvöru teygjuæfingar, að hennar sögn. Eftir að ballerínan tók að leiðbeina þessum aðilum um grunnþætti upphitunar og teygjuæfinga hefur markmiðið nú verið sett hátt: Að gera B1 að liðugasta flokki sveitarinnar, – og harðsperrulausan, – hvað sem á reynir.

Flest úr þessari ferð bendir til þess að nýliðarnir lofi góðu, þrátt fyrir nýgræðingshátt og ýmis undarlegheit eins og nuddolíu lúxus sem Óli 86  (Vodafone strákurinn) sá um, og upphitaða Beairnais-sósu sem virðist hafa verið löguð á fimm stjörnu hóteli.

Á sunnudeginum var svo gengið á Útigangshöfða og að sjálfsögðu endað á Pizza 67 um kvöldið þar sem menn fengu sér EKKI grænmetispizzu .

 

Steinunn Anna Kjartansdóttir B1

Skildu eftir svar