„“Le Fimm í Chamm““ – Frakklandsferð október 2003

“Hvar er Víðir?” spurðu Atli, Maggi og Bjarni einum rómi er þeir hittu okkur Skúla með kryppling í poka og glas í hendi á Leifsstöð klukkan hálf sjö um morguninn. Fyrst Víðir komst ekki með var eðlilegt að ætla að við Skúli hefðum farið umsvifalaust á barinn til að drekkja sorgum okkar. Aðdragandinn var reyndar dramatískur. Víðir mætti klukkan 05.15 um morguninn út á Loftleiðir en í stað þess að kaupa sér miða með rútunni eins og við hinir studdi hann annarri hendi við bilað bakið en þurrkaði tárin með hinni. Síðar fréttum við að hann hefði ekið á eftir rútunni suður í Straumsvík og enn síðar játaði hann að hafa verið með dótið í bílnum! Við nöguðum okkur í handarbökin fyrir að hafa ekki hvatt hann meira til fararinnar. Nú þegar ævintýrinu er lokið er ekki annað að segja en… “Víðir…þú hefðir!”

Í stuttu máli var ferðin í alla staði mjög góð. Við náðum að halda okkur á mottunni og engin gerði sig sekan um að ófrægja orðspor sveitarinnar eða setja svartan blett á hið erlenda samstarf. Og eftir að hafa kynnst betur ferðafélögum mínum þessa sjö daga má það heita furðu góður árangur svo ekki sé meira sagt. Er þá ekki tilganginum náð eða er hægt að gera meiri kröfur?

Í samanburði við aðrar utanferðir á vegum félagsins held ég að við höfum verið eins og stúlknakór á leið á kóramót! Við vorum snyrtilegir, stilltir og auðmjúkir í alla staði og hvar sem við fórum bárum við Flugbjörgunarsveitarinnar í Reykjavík fagurt vitni. Mér finnst rétt að hafa sérstaklega orð á þessu vegna þess hve ríka áherslu Leifur lagði á téð atriði daginn áður en ég hélt utan.

Á brautarstöðinni í Annecy tók á móti okkur nokkurs konar Einar Torfi þeirra Pompier-manna (slökkviliðsmanna). Nú vildi ég segja að hann hefði verið snaggaralegur og hress náungi en læt það vera því hann var fyrst og fremst ábyggilegur og ljóst að hann vissi hvað hann átti að gera við okkur, en það var þægileg tilfinning eftir allt slarkið sem fylgir ferðalagi í 12 tíma. Reyndar heitir hann Stephan og fór með okkur á veitingahús þetta fyrsta kvöld á franskri grund. Við vorum glorhungraðir en þjónustaðir af franskri blómarós svo maturinn var aukaatriði!

Mettir og sælir fórum við í Skógarhlíð þeirra Pompier-manna. Þar fengum við úthlutað herbergjum með rúmum. Frönsk sól hneig til viðar eins og heima, heldur fyrr ef eitthvað var; veðrið gott og spáin skapleg fyrir næstu daga sem áttu eftir að verða viðburðaríkir.

Þegar ég vaknaði morguninn eftir krossbrá mér eins og venjulega fyrstu nóttina að heiman, í öðru rúmi en mínu eigin. Ekki dró úr sjokkinu að sjá fúlskeggjaðan mann við hlið sér en eftir nokkur augnablik áttaði ég mig á að þetta var túlkurinn! Já, Í hópnum hafði hver og einn ákveðnu hlutverki að gegna og saman vorum við eins og samstillt strengjasveit eða öllu heldur eins og amaba sem maður sá í víðsjá í skóla, nema þessi var stundum með fimm höfuð. Skúli Magg var tekinn með af því að hann kunni frönsku.

“En til Chamonix…þangað hef ég aldrei komið”!

Annecy er fallegur bær um 90 km vestan við Chamonix. Þennan dag ókum við til “Cham” og þegar nær dró mátti auðveldlega dæma af upphrópunum mínum hversu rennandi blautur ég var á bak við eyrun. Í Cham tókum við lest upp í skála ofan Mer de Glace skriðjökulsins sem ekki er ósvipaður frændum sínum fyrir austan fjall. Vegna jökulhops á síðustu öld máttum við lækka okkur, um það bil 300 metra, eftir járnstigum sem boltaðir höfðu verið í bergið alla leið niður á jökulsporðinn.

Þrátt fyrir að vera uppfullir af vissu um eigið ágæti og hæfileika í fjallamennsku varð okkur fljótlega ljóst að þá staðreynd bárum við ekki utan á okkur. Til að byrja með var farið í grunnatriði jöklagöngu og broddatækni. Stórkallalegur merkilegheitasvipur fimmmenninganna frá landi ísa tók fljótlega breytingum þegar gestgjafar okkar hlupu á flatfótstækni, kenndri við Charlet, upp allt að 85° brekkur. Aðdáun okkar var alger en við það sat því fæstir okkar áttu gott með að leika þetta eftir. Nú tók við sýnikennsla og endalausar pælingar í smáatriðum tengdum því að ná manni upp úr sprungu. Fjölmargar aðferðir voru skeggræddar en þegar alþekktur misskilningur þjóðanna tveggja um hvað hver og einn hinna fjölmörgu prússikhnúta nefnist misstu sumir þráðinn. Það kom þó ekki að sök því útsýnið af jöklinum var stórfenglegt með Dru uppi og Grand Jorases fyrir enda hans…ekki ósvipað Svínafellsjökli og Hrútsfjallstindum bara stærra. Þennan dag kom sér vel að hafa tekið Atla með því íðorðasafn hans í fjallabjörgun náði langt út fyrir reynsluheim fransmannanna…allavega íslenska íðorðasafnið!

Eftir þurra langloku með osti, (Það þarf að kenna fransmönnum að baka mjúkt og gott brauð)”, gerðust hinir frönsku gestgjafar okkar brattir og vildu klifra. Fimm tóku þessu fagnandi en litu í kringum sig án þess að mögulegt væri að fylgja fagnaðarlátunum eftir. “Hvar?” “Bara hér” sögðu þeir og bentu niðr í sprungu. “Hmmm“. 60° brekkan höfðaði lítið til Fimm sem bentu í hina áttina á 10 metra háan vegg ekki langt frá sem slútti eilítið yfir sig í bláendann. “Hvað með þennan?” Franska heimsveldið í fjallamennsku riðaði yfir þessum gorgeir aðkomumannanna! Mhedi leit á Philip og þeir báðir á Franc sem sagði “Ef þið treystið ykkur getið þið svo sem reynt þetta”. Skemmst er frá því að segja að Fimm græjuðu gírinn, hituðu upp og “flössuðu” fésið.

Þetta var 27. september 2003, dagurinn sem Fimm, fulltrúar Flugbjörgunarsveitarinnar í Reykjavík, stimpluðu sig inn í franska fjallamennsku…þannig leið okkur að minnsta kosti.

Annan daginn rigndi en ekki sló það heimamenn út af laginu, því þá var farið í Canyoning” sem helst kann að líkjast því sem hér hefur verið nefnt fossa-sig. Þetta er vinsælt áhugamál og á svæðinu í kring mátti velja úr tæplega 60 miserfiðum gljúfrum. Frammistaða okkar á jöklinum daginn áður virtist ekki hafa sannfært þá um yfirburðagetu hópsins því gljúfrið sem varð fyrir valinu var gráðað D í alpakerfinu. Gljúfragangan kom þó öllum skemmtilega á óvart enda allt að 60 metra löng sig og 10-12 metra stökk ofan í hyli…alveg nóg til að byrja með!

Þá tók við alpaganga að hætti innfæddra. Þennan dag var fenginn þaulvanur fjallaleiðsögumaður sem ekki hafði farið sjaldnar en 50 sinnum á hátind Mt. Blanc og yfir 30 sinnum á fyrirhugaðan tind okkar Dome de Miage, sem var verkefni næstu tveggja daga. Christophe hét garpurinn og sór útlit hans og holning sig vel í ætt við fótfrátt kyn franskra fjallamanna. Með honum var Mhedi, heldur hærri til hnésins og í tindasöfnun fyrir leiðsögumannaskólann (ENSA) í Cham, og Benois “slökkviliðsstjórinn” í litla fjallabænum, Contamines, sem við lögðum upp frá.

Þeir sem komið hafa í alpana vita að flatlendi er þar af skornum skammti og að síst er bruðlað með það í fjöllunum. Þetta vissi ég hins vegar ekki og gerði mér litla grein fyrir því sem beið í þokunni. Christophe gekk rösklega af stað og Fimm á eftir. Ég horfði á Christophe og hugsaði með mér að hann væri hálfviti, í gore-tex buxum í 20°C hita. Uppeldi Fimm í Flugbjörgunarsveitinni til mismargra ára hafði kennt okkur eitt. Við erum bestir og látum engan hlaupa á undan okkur. Við skokkuðum því allir fast á hæla Christophe, hins reynda meistara. Hiti og sviti boguðu af í fyrstu beygju en ekkert var eftir gefið enda slakaði forystusauðurinn lítið á. Eftir eins og hálfs tíma sprettgöngu og 800 hæðarmetra stoppaði Christof og settist á bekk. Ég lagðist hins vegar á grúfu þar sem lítið bar á meðan svitaholurnar voru að lokast! Þegar ég hafði náð andanum ákvað ég að nauðsynlegt væri að kenna þessari fjallageit góðan íslenskan ferðasið, sem ég hef haldið í heiðri á ferðum mínum á Íslandi. “Hægt af stað farið hratt í hlað komið”. Það eru mín einkunnarorð. Ég gekk til Christofs sem tók út úr sér sígarettuna. Mér var heitt í hamsi og fór yfir línuna mína í huganum en þá gekk Skúli á milli okkar og sagði “slappaðu af Gauti…þeir fara alltaf svona RÓLEGA af stað”!

Þremur tímum ofar þynntist þokan en einnig loftið og við sáum glitta í fyrstu tindana hátt fyrir ofan okkur. Þetta var stórkostlegt og lífgaði sannarlega andann auma. Á næsta hrygg sá ég síðan skálann Refuge Des Conscrits þar sem hann stóð eins og meitlaður út úr berginu ofan við skriðjökulinn. Það var mögnuð sjón því þótt ég vissi að við stefndum í skála datt mér aldrei í hug að hann væri á þvílíkum stað. Þetta er nýlegur skáli með öllum lífsins þægindum… og bjór (m.a. óáfengum). Að loknum þríréttuðum kvöldverði fórum við út á svalir og virtum fjallahringinn fyrir okkur. Það var stjörnubjart og stillt sem vissulega gaf fögur fyrirheit um veður morgundagsins. 

Klukkan 05 morguninn eftir var síðbúið alpastart. Ég hef ferðast töluvert með Guðjóni Marteins og er orðinn vanur að sjá undir iljarnar á honum þegar vekjaraklukkan hringir! Christophe var hinsvegar Guðjón í öðru veldi. Nú átti greinilega að taka okkur í bólinu og þegar ég var búinn að opna augun var Christophe ferðbúinn. Ég er alltaf tilbúinn að leggja töluvert á mig til að kynnast menningu framandi þjóða. Í þessu tilliti er ég við öllu búinn þegar kemur að mat. En að mér skildi verið boðið upp á Kellogs Kornflakes með mjólk þarna uppi í fjöllunum kemur mér enn á óvart. Hvar var baguettið og espresso-bollinn, Rochefortinn og Emmentalerinn…er hann ekki örugglega til? Um einum og hálfum tíma síðar stigum við á jökulinn í um 2800 m hæð og þá þótti Christophe tímabært að binda sig í línu. Þegar Skúli spurði Christophe, af sinni alkunnu hógværð, hvort hann vildi að Íslendingarnir væru e.t.v. saman í línu brást hann hinn versti við og sagði að hann hefði nú ekki verið að þvælast þetta ef hann hefði talið að við gætum þetta sjálfir! Skúla setti hljóðan…en ég skil hvernig honum leið…því eftir þetta strekktist aldrei á línunni á milli Christofs, hans og Bjarna.

Eftir því sem dagsbirtan jókst og við hækkuðum flugið komu fleiri og fleiri tindar í ljós og fljótlega varð okkur ljóst hvert stefndi. Veðrið var eins og best verður á kosið; svolítið frost og alger stilla. 10-15 sentimetra nýsnævi var yfir öllu og eina “ruslið” sem varð á vegi okkar voru þotur háloftanna. Á “rólegum” hraða þræddum við krosssprunginn og úfinn skriðjökulinn sem liggur norður í átt að Mont Blanc, á “rólegum” hraða. Fjallasalurinn stækkaði og varð allt að því yfirþyrmandi. Nú var ákveðið að skipta um troðara og Mhedi tók af skarið. Ég vissi sem var að nú yrði hraðinn aukinn svo ég seildist í mittistöskuna eftir Marsi enda tæpir þrír tímar frá því að við lögðum af stað og ekkert verið stoppað á leiðinni. Í því sem ég er að taka utan af súkkulaðinu hreytir Christophe einhverju í mig sem túlkurinn þýðir “Hann segir að það sé enginn tími til að borða núna”! Ég horfði djúpt í augun á Christophe, eins og til að segja “gerðu það!” en augnaráð hans varð til þess að mér svelgdist á súkkulaðinu. Það varð að bíða þar til Christophe þóknaðist að ég nærðist. En nú var komið að því. Mhedi var við rásmarkið og nú þurfti að sanna sig fyrir Christophe. Mhedi gaf allt í botn og það var á mörkum þess sem aldursforseti Fimm hópsins þoldi. Þegar við komum upp í skarðið undir tindinum Dômes de Miage lá Mont Blanc fyrir fótum okkar. Eitt augnablik hvarflaði hugur minn upp fjallið. Leið okkar lá hins vegar í suður upp stórkostlegan og brattan snæviþakinn hrygg sem endaði á fallegum tindi. Nú gáfust nokkrar sekúndur áður en Mhedi kippti aftur í línuna og þær notaði listamaðurinn Le petit Mac til að ná nokkrum stórkostlegum skotum og verð ég illa svikinn ef mér sjálfum á ekki eftir að bregða þar fyrir. Við stoppuðum sorglega stutt. Síðan strunsaði Christophe niður í næsta skarð og við á eftir. Ég var rétt sestur á pokann og búinn að taka upp harða brauðskorpuna með þurra ostinum þegar bónusinn kom. Christof stóð upp og tilkynnti að af því við vorum svo sprækir vildi hann endilega bæta við einum tindi í viðbót. Mig minnir að hann hafi heitið Arréte de la Bérangére. Allt er launað erfiðið og þegar upp var komið erfðum við ekki ákvörðunina við hann. Svo var farið niður…alveg niður á tún!

Fimmti dagurinn var tileinkaður öðru vinælu sporti, Via ferrata, sem ku vera ítalska og merkja járnlögð gata. Hugmyndin að þessu áhugamáli er sótt til smyglara, sjálfsagt ítalskra mafíósa, sem notuðu eitthvað í líkingu við þrep og stiga í bergið til að komast yfir fjallaskörðin! Það sem vakti þó mesta furðu okkar heimaaldra var að sportið nýtur vinsælda jafnvel meðal fólks sem mundi aldrei snerta á klettaklifri. Veggurinn sem við pjökkuðumst upp hangir um 350 metra yfir litlum bæ, reyndar yfir barnum og klifurbúð bæjarins sem að sjálfsögðu leigir allan útbúnað í þessa skemmtilegu tómstundaiðju. Svitinn sem uppferðinni fylgdi var ósvikinn og þegar upp var komið sótti að okkur mikill þorsti. Leiðin niður lá í gegnum skóg og hraðinn jókst eftir því sem nær dróg, en allt í einu stoppaði Francis henti af sér pokanum helti úr honum karabínum, spottum og trissum. Nú skildi Atli fá það sem hann hafði beðið um! Francis smellti upp dobblunarkerfi og síðan hófust samræður Atla og Francis um dobblanir. Þegar niður kom slökktu allir þorstann við hliðina á klifurbúðinni!

Vandaðri dagskrá kollega okkar lauk síðan með klassísku 8 spanna kalksteinsklifri í 2100 metra hæð í Arvis fjöllunum. Um klukkustundar gangur er að leiðunum frá skarði Col de la Columbiére en þar ku Tour de France keppnin eiga leið um. Á veginum sem liggur upp í skarðið hafa verið skráð nöfn allra þeirra sem leitt hafa hjólakeppnina í skarðinu.
Á leiðinni upp varð á vegi okkar lógó kvikmyndasamsteypunnar “Dead sheep productions” sem Le petit Mac fer fyrir 

Þennan dag klifruðu Fimm tvær leiðir. Erfiðasta spönnin var 7a en flestar á bilinu 6a – 6b við ystu mörk getu okkar. Óhætt er að fullyrða að allir hafi svitnað of mikið, nema Bjarni sem hélt uppi merki Fimm með tilþrifum þennan dag. Með þrútna fingur og bólgnar tær héldum við heim á leið. Til að undirbúa okkur fyrir hátíðarkvöldverðinn með nr.2, sem kallaði sig svo, slógum við upp partýi á húddi Land Roversins. Veisluföngin samanstóðu af reyktum Úteyjarsilungi, þrælbörnum harðfiski frá Flateyri, Emmentaler (loksins!), vínberjum, bjór og kripplingnum góða sem áður kom við sögu. Þannig kvöddum við leikfélaga okkar þennan síðasta dag, þá Marshall, Silva og Menu.

Já ferðin var góð og fjöllin há. Hinir frönsku kollegar okkar eru góðir heim að sækja og margt af þeim hægt að læra.

Við fimm sem heimsóttum Sapeurs-Pompiers að þessu sinni erum ánægðir með ferðina í alla staði. Þá urðum við varir við mikinn áhuga kollega okkar í Sapeurs-Pompiers á fyrirhugaðri ferð til Íslands og hlakkar mikið til að sýna þeim þær gjörólíku aðstæður sem mótað hafa íslenska björgunarmenn. Að lokum viljum við þakka Gerard sérstaklega fyrir að hafa komið á þessu skemmtilega samstarfi sem við vonum að verði áframhald á.

Undirritaður var aldursforsetinn í hópnum og eingöngu tekin með til að hægt væri að sýna honum alpana áður en það yrði um seinann.

Jón Gauti

 

Skildu eftir svar