Íslenska alþjóðasveitin stóðst prófið

Íslenska alþjóðasveitin hlaut í gær formlega vottun sem fullgild alþjóðleg rústabjörgunarsveit frá INSARAG, sem eru samtök alþjóðlegra rústabjörgunarsveita sem starfa undir hatti Sameinuðu þjóðanna. 10 manna útektarteymi frá INSARAG hefur undanfarna daga verið með sveitinni á strangri æfingu á Gufuskálum á Snæfellsnesi.

Umsögnin sem sveitin hlaut frá úttektarteyminu að æfingu lokinni var afar góð. Þar sagði m.a. að sveitin hafi sýnt mikla fagmennsku í öllum verkum sem leiddi til góðrar frammistöðu. Einnig var tekið eftir afar öguðum vinnubrögðum og góðum anda innan hennar.