Fjallahópsútkall í Laxárgljúfri

Á miðnætt í gærkvöldi voru undanfarar á höfuðborgarsvæðinu og suðurlandi kallaðir út vegna manns sem hrapað hafði í Laxárgljúfur, alls 70 metra niður í gljúfrið. Maðurinn var töluvert slasaður og með litla meðvitund.
Þrír björgunarmenn fóru með þyrlu landhelgisgæslunnar TF-Gná á staðinn en þyrlan gat ekki athafnað sig í gljúfrinu og voru björgunarsveitir því sendar á staðinn til að aðstoða við að flytja hinn slasaða upp úr gljúfrinu. Fimm undanfarar úr FBSR mættu í útkallið en alls voru um 75 björgunarsveitarmenn og sjálfboðaliðar á svæðinu að vinna að björguninni. Til að koma sjúklinginum upp úr gljúfrinu þurfti að setja upp línur yfir gljúfurbarminn sem og upp gil sem liggur sunnanvert i hlíðinni. Mikið lausagrýti og skriður torvelduðu alla vinnu því mikil hætta stafaði af grjóthruni fyrir þá sem staddir voru í gljúfrinu hjá hinum slasaða.
Björgunaraðgerðum lauk að ganga fimm um morguninn þegar sjúklingnum hafði verið komið um borð í þyrluna þaðan sem hann var fluttur á LHS og gekkst hann strax undir aðgerð og er hann skv. upplýsingum á batavegi.

Skildu eftir svar