Greinasafn fyrir flokkinn: Ferðasögur

Fyrsta hjálp á Laugarvatni okt 2007

Um helgina voru fréttamenn B1 með í för er hópur nýliða ásamt fleirum FBSR meðlimum fóru á Laugarvatn til að læra og sumir að rifja upp „Fyrstu Hjálp“.

f1Um það bil 30 manns í B1 var komið fyrir á Menntaskólanum á Laugarvatni og völdu menn sér ýmist svefnpláss í kennslustofum eða öðrum vel völdum stöðum innan eða utan veggja skólans. Fyrirlestrar hófust strax hjá Sigurbirni Gíslasyni í Björgunarfélagi Akraness, en Sibbi eins og hann kýs að kalla sig er léttlyndur Skagastrákur sem býr að miklum slysasöguforða og oftar en ekki gat komið með „first hand“ sögur tengdar efninu. Kennslu lauk uppúr 22 á föstudagskvöldið og hafði þá fólk lausan hala frammað háttatíma. Sumir fengu sér smá göngutúr meðan aðrir horfðu á videó eða enn aðrir fóru í göngutúr í hraðbankann sem endaði síðan á Lindinni á Laugarvatni.

Það sem lesendur þurfa að gera sér grein fyrir er hvernig er að sofa í skólastofu með hóp þar sem meðalaldur er 26 ára. Það er nefnilega ekkert öðruvísi en það var þegar maður var 10-12 ára 🙂
Eftir langt en gott galsabrandara-session náðu flestir að sofna og var síðan ræs kl. 08.30 á laugardeginum.

Til að gera langa sögu stutta þá voru fyrirlestrar fram á kvöld ásamt verklegri kennslu inn á milli. Þegar var komið á seinnihluta fyrirlestranna var komin smá vottur af galsa í menn og þá fóru fimmaurarnir að fljúga:

Sibbi: „Þetta er semsagt SAM-spelka.“

Sigurbjartur: „Nennirðu að láta hana ganga?“

Helgi: „Hún getur ekkert gengið.“

Sibbi: „Hryggjasúlan er ekki bein.“

Vimmi: „Nú hvað er hún þá? Brjósk?“

Sibbi: „Hvar á að geyma tennur?“

Doddi: „Utanum hálsinn.“

Sibbi: „Hvernig hitum við alvarlega ofkældan sjúkling innanfrá?“

Doddi: „Setjum hann í örbylgjuofn.“

Seinna um kveldið var síðan æfing úti sem tókst bærilega vel m.v. aldur og fyrri störf allra sem sátu námskeiðið. Eftir „de-briefing“ á æfingunni hófst kvöldvakan sem haldin var í Stofu 204 sem var betur þekkt sem dönskustofan.

f2Fyrst var farið í Fram, Fram, Fylking og þannig hitað upp með mannskapnum sem endaði í reipitogi þar sem Jarðaberjaliðið sigraði eftir smá backup aðstoð að sögn vitna. Menn voru sko ekki á þeim skónnum að hætta því næst tók við Stólaleikur sem síðan endaði í „Mangó mangó“ leiknum, „The Romantic version“.

Ástarfleygið sjálft hafði komið með í för og laðaði Vimmi til sín góða gesti ofaní fleygið. Kvöldvökunni var síðan formlega slitið kl. 03.20 en þá voru lætin orðin of mikil fyrir þá sem hvíla vildu lúin bein.

Ræs var síðan aftur kl. 08.30, svipað kerfi og fyrri daginn, fyrirlestrar og eitthvað smá verklegt. En svo var komið að prófinu. Hópurinn fékk klukkutíma til að hita upp fyrir prófið sem hófst á slaginu 15:00. Eftir próf fóru þeir félagar Sibbi og Ási sveittir yfir prófin og afhentu síðan einkunnir. Ekki var gefin út meðaleinkunn en flestir náðu og var meiri að segja ein 10 gefin :D. Eftir tiltekt var síðan haldið heim á leið.

Hell Weekend 2005

Hell Weekend 2005

rn

Eins og lög gera ráð fyrir er ekki margt sem segja má opinberlega um HellrnWeekend, né heldur má birta mikið myndefni. Þó eru hér birtar nokkrar myndirrnaf hluta þeirra sem hjálpuðu til við framkvæmdina og fá þau öll hér um leiðrnkærar þakkir fyrir hjálpina.

rn

 Allir sem komu að þessu eiga frábærar þakkir skildarrnfyrir. Þetta hefði ekki verið hægt á ykkar. Takk kærlega fyrir.

rn

Kær kveðja,
rnMatti Zig.
rna.k.a. Lúsifer. a.k.a Diablo

rn

 

 

rn


rnHvur djö!?
rn

rn

 

rn

 

rn

 

Grænlandsferð FBSR, páskar 2002

Það var að morgni 28. mars 2002 sem að sextán aðilar úr Flugbjörgunarsveitinni í Reykjavik hittust á Reykjavíkurflugvelli með stefnuna á Kulusuk í Grænlandi. Allir voru vel klyfjaðir en þó var gætt að því að hver og einn bæri ekki með sér meira en 20 kg til að fara ekki á yfirvigt og þar með eiga á hættu að þurfa að skilja búnað eftir. Vikuna áður hafði þessi sami hópur sent heil 400 kg af búnaði í frakt til Grænlands en sú sending innihélt m.a. skíði, mat o.fl. Þvílíkt magn af búnaði fyrir eina viku.

Þetta var nú einu sinni Grænland og því mátti búast við að vikuferð gæti farið í átta daga, níu eða tíu – allt eftir veðri og hvort flogið yrði eður ei. Á flugvellinum dreifðum við flíspeysum á mannskapinn, merktum „Grænland“ og „F.B.S.R“. Einnig fékk hópurinn afskaplega litaglöð jöklagleraugu, allt þetta í boði félaga okkar hjá Útilíf.

Eftir tveggja tíma flug var hópurinn lentur í Kulusuk. Fyrsti áfanginn var að baki, við náðum að lenda. Þegar Grænland er annarsvegar hefðum við getað endað uppi á fróni aftur, því veðrið er ekki alltaf hlynnt flugvélum. Í Kulusuk var skýjað en þurrt og í flugstöðinni biðu okkar 400 kg af búnaði sem sendur hafði verið í frakt. Um leið og við stigum úr vélinni var farið í að pakka í púlkurnar en púlka er einskonar snjósleði sem við drögum farangurinn á. Pökkunin fór fram utandyra enda flugstöðin álíka stór og pylsuvagn og því ekkert pláss. Meðal þess sem pakkað var voru fleiri tugir kílóa af súkkulaði. Þarna voru átta kassar af Snickers og Mars, Daim súkkulaði, fjórir kassar af Marabou súkkulaði, kassi af suðusúkkulaði og heill kassi af páskaeggjum nr. 2 frá Nóa Siríusi. Þessu öllu var dreift á mannskapinn enda veitti ekki af þessari orku fyrir vikuferð. Einnig voru með í för tveir rifflar ásamt öflugum skotum sem sérstök leyfi höfðu fengist fyrir á íslandi, enda svoleiðis búnaður nauðsynlegur á ísbjarnarslóðum.

Fyrir utan flugstöðina biðu „taxar“ Grænlands, hundasleðar og hundar sem búið var að setja í „handbremsu” með því að festa eina loppuna í ólina. Þar var reyndar einn jeppi líka en seinna komumst við að því að jepparnir á þessum slóðum voru einungis tveir og báðir í eigu hótelsins í Kulusuk, sem er nýlegt, byggt fyrir u.þ.b. átta árum síðan. Vegaslóðinn sem opinn er á þessum árstíma er rétt um 1 km og liggur frá flugvellinum að hótelinu. Það var því eins gott að jepparnir voru breyttir á 44” dekkjum! Um það leyti sem við vorum ferðbúin, hittum við fyrir Jóa og Guðrúnu, Íslendinga sem búa í Kulusuk. Jói hafði veitt okkur góða hjálp í öflun upplýsinga um svæðið og hér var hann kominn til að afhenda okkur hreint bensín á prímusana en það urðum við að fá í Kulusuk, þar sem ekki má fara með eldsneyti um borð í flugvél. Bensínbrúsar voru fylltir og nú var kominn tími til að legga af stað.

Veður versnar

Það passaði, um leið og við stigum á skíðin var skyggni orðið lítið sem ekkert og vindur byrjaður að blása. Jákvæða hliðin var hinsvegar sú að hefðum við komið í flugi tveimur tímum síðar, hefði ekki verið hægt að lenda. Seinna komumst við að því að flugið til baka til Íslands hafði ekki komist af stað fyrr en daginn eftir. Upphafleg ákvörðun hafði verið að ganga frá Kulusuk til norð-norð vesturs að bænum Kuummiit. Þetta átti að taka þrjá daga og ætluðum við aðra þrjá daga til baka aftur. Nú hafði hinsvegar planið þegar breyst því á flugvellinum fengum við upplýsingar um að leiðin okkar væri ófær vegna þess að opið haf væri á leiðinni. Því var ljóst að við þurftum að fara töluvert austar en áætlað var sem myndi lengja ferðina til Kuumiuut um a.m.k. einn dag. Planið var því orðið tæpt upp á að ná flugvél til baka eftir viku, en engu að síður var ákveðið að leggja af stað enda mátti þá breyta ferðaáætluninni hvenær sem er og halda þá til baka til Kulusuk – taka einskonar hring.

Um tvö leytið á Grænlenskum tíma vorum við komin af stað, sextán manns með fimmtán púlkur. Það var skrýtin tilfinning að ganga í litlu skyggni fram af bryggjunni í Kulusuk, beint út á hafið. Ekki laust við að fyrstu skrefin á ísilögðum sjónum væru tekin með óttablandinni tilfinningu, hvort næsta skref myndi skila manni gegnum ísinn. Fljótlega hvarf þó þessi tilfinning þar sem maður fann að ísinn var svo sannarlega traustur. Það var gengið eftir stefnu á áttavita, því skyggni var ekki mikið, ekki meira en 3-400 metrar og fór minnkandi. Eftir um tveggja tíma göngu var skyggnið komið undir 100 metra og farið að snjóa, auk þess sem enn frekar hafði hvesst. Undir lokin þurfti undirritaður að halda sig í miðjum hópnum og kalla á 10 mínútna fresti á þá sem fremstir voru í röðinni til þess eins að halda þeim í stefnu, þar sem auðvelt var að berast undan vindi og hríðinni. Þó fór svo að lokum að við sáum glitta í fjall og því var GPS tekinn upp og kannað hvort við værum ekki á réttri leið. Jú, eftir allt saman höfðum við komið nákvæmlega yfir fjörðinn þar sem við höfðum áætlað okkur. Um átta leytið um kvöldið var farið að dimma og við komin á þann stað sem áætlað var að gista fyrstu nóttina. Þegar búið var að finna stað á litlum tanga var byrjað að tjalda en því var fljótlega hætt þar sem nánari skoðun hafði leitt í ljós þó nokkra snjóflóðahættu á þeim stað. Allt var tekið saman og búnaðurinn færður á betri stað með enga snjóflóðahættu en á móti kom að þar var mun hvassara. Það var engu að síður skárra en sofa undir hættunni af snjóflóði.

Svefnlítil nótt

Nokkuð var mannskapurinn þrekaður eftir þennan fyrsta dag enda hafði flugferðin tekið orku og veðrið ekki að hjálpa til. Reyndu menn að setja ofan í sig eitthvað matarkyns til að ná upp orku fyrir morgundaginn. Mönnum tókst það misvel en upp úr miðnætti voru flestir komnir ofan í svefnpoka. Veðrið var búið að vera vont og fór ekki batnandi. Um nóttina hvessti enn frekar og léku flest tjöldin á reiðiskjálfi. Svo hvasst var á tímabili að sumir höfðu það á orði daginn eftir að þeir hafi hreinlega beðið eftir því í hverri vindhviðu að tjaldið tækist hreinlega á loft. Stúlkurnar tvær í hópnum höfðu m.a. þurft að vakna þrisvar um nóttina til að loka tjaldinu, því það vildi fjúka upp í verstu hviðunum. En sem betur fer sannaði það sig loks að stundum borgar sig að kaupa dýra hluti og átti það við um tjöldin í ferðinni. Tjöldin sem með í ferðinni voru, eru öll hönnuð fyrir svona kringumstæður og því tókst flestum að beisla draumalandið í einhverja klukkutíma – þó þeim mun betur sem höfðu haft vit á því að taka eyrnatappa með sér.

Um morguninn var lítil hreyfing á mannskapnum. Veðrið var enn leiðinlegt, mikill vindur og skafrenningur og því var ákveðið að híma í tjöldum a.m.k. fram að hádegi en þá átti að lægja samkvæmt veðurspánni. Það gekk eftir – upp úr hádegi fór að lægja og skyggni batnaði mikið. Skyndilega vorum við farin að sjá landslagið í kringum okkur og sáum þá hversu nálægt ísröndinni við höfðum í raun gengið daginn áður.

Við höfðum alltaf vitað að vestan við okkur væri opið haf í Ammassalik firði. Það var ekki fyrr en nú að við sáum að við höfðum í raun einungis gengið í u.þ.b. 1 km fjarlægð frá þessari rönd. Það er óhætt að segja að manni var létt að vita til þess að nú væri a.m.k. gott skyggni. Það var kalt þennan annan dag ferðarinnar og skafrenningur en þess fyrir utan var veður ágætt. Ferðin gekk bærilega og um miðjan dag sáum við í fyrsta sinn villt dýralíf frá því að við lögðum af stað. Er við gengum í einum firðinum sáum við töluvert stóra vök til hliðar við okkur. Þegar við stoppuðum til að virða fyrir okkur vökina kom einhver auga á lítið höfuð syndandi í vökinni. Það var ekki um að villast að þarna var selur á ferð og áttu þeir eftir að verða fleiri á vegi okkar í þessari ferð.

Sól og hælsæri!

Eftir um 5-6 klst göngu á þessum öðrum degi var stoppað við minni fjarðar og ákveðið að tjalda. Ekki borgaði sig að ganga mikið lengur því bráðum tæki að dimma og það væru a.m.k. 4 km á ísilögðu hafi áður en við gætum næst tjaldað með land undir fót. Þetta reyndist hinn besti tjaldstaður. Áfallalaust gekk að koma mannskapnum í tjöld í þetta skipti enda veður orðið mjög skaplegt og í raun svo gott að um kvöldið blasti við okkur stórkostlegur himinn, prýddur norðurljósum og stjörnum. Við ákváðum að not gervihnattasímann og hringja til Jóa og Guðrúnar í Kulusuk og láta vita af okkur. Þá var okkur tjáð að þeir sem þekktu til okkar í Kulusuk höfðu haft töluverðar áhyggjur af okkur enda hafði veður ekki verið skaplegt þar frekar en hjá okkur. Öllum létti þó að vita að við höfðum það gott. Einnig var hringt til Íslands og fréttum við af tveimur útköllum sem þar voru í gangi. Öllum fannst leitt að geta ekki rétt hjálparhönd í þeim tilvikum en við því var ekkert að gera. Síðar fréttum við að bæði útköllin höfðu endað mjög vel miðað við aðstæður.

Þann 30. mars vöknuðum við kl. 06:30 og hófum að bræða snjó fyrir vatnsnotkun dagsins. Það var mjög kalt um nóttina en mælir sem festur var við bakpoka hafði frosið fastur í –18C. Höfðu menn að orði að líklegast hefði frost verið í kringum 25 gráður þá um nóttina. Um morguninn var símaviðtal við einn úr hópnum við Bylgjuna og voru dagskrárgerðarmenn þar á bæ vantrúaðir að við værum í raun í auðninni á Grænlandi, svo skýrt var sambandið í gegnum gervihnött. Þegar við gerðum okkur klár að leggja af stað um níuleytið, braust sólin fram og umsvifalaust tók að hlýna. Þegar líða fór á daginn hrinti himininn frá sér öllum skýjum og áður en yfir lauk voru allir komnir á þunna peysu eða stuttermabol. Að sama skapi þyngdist færðin þar sem snjórinn varð blautur af sólskininu og 16 manna hópur með púlkur fór ekkert sérlega hratt yfir. Aftur sáum við sel úti á miðjum ísnum en þegar reynt var að nálgast hann, hvarf hann í vök. Þennan dag voru gengnir 18 km sem verður að teljast gott undir þessum kringumstæðum. Um kvöldið var komið á áætlaðan tjaldstað – á litlu skeri er heitir Tiniteqilaaq og skartaði endalausu snævi þöktu hafi á aðra höndina og tilkomumiklum fjöllum sem stóðu 7-800 metra beint upp úr sjónum á hina höndina. Inn á milli mátti síðan sjá tignarlega borgarísjaka sem orðið höfðu innlyksa þegar firðina tók að frjósa haustið áður. Þetta var stórkostleg sjón. En nú var öll gangan í þrjá daga byrjuð að taka sinn toll. Hælsæri voru farin að segja til sín og undirritaður var sérstaklega slæmur hvað þetta varðar. Því miður hafði ekki gefist nægilegur tími til að ganga nýju skíðagönguskóna til fyrir ferðina og því fór sem fór. Reynt var eftir bestu getu að búa um hælsærið um kvöldið með „gerviskinni” eins og kostur var. Einnig var ljóst að tími okkar var tæpur og þarna um kvöldið var ákveðið að halda áfram ferðinni til Kuummiit og taka þyrlu þaðan til baka til Kulusuk. Eftir hringingu úr gervihnattasímanum komumst við að því að veðrið átti að haldast áfram gott næstu daga.

Viðburðarríkur páskadagur

Á páskadag 31. mars var vaknað fyrir klukkan sjö og hafist handa við að bræða snjó. Sérstakur morgunverður var fram borinn þennan morgunn – páskaegg númer tvö frá Nóa Siríusi. Útvarpið var dregið fram og hlustað á páskamessu sem hægt var að ná á langbylgju alla leið frá Íslandi. Rúmlega níu var svo haldið af stað í blíðviðri eins og daginn áður. Hælsærið hjá undirrituðum var orðið mjög slæmt þennan dag, í raun svo slæmt að hvert skref var orðið sársaukafullt. Svo fór að lokum að létt var á byrðum undirritaðs svo að hlutirnir gengju betur fyrir sig. Eftir nokkurra klukkutíma göngu gerðist það sem flestir höfðu óttast. Við höfðum stoppað á göngunni til að fá okkar að borða. Meðan menn og konur nærðu sig höfðu flestir tekið af sér skíðin. Um það leyti sem við ætluðum að ganga af stað ákvað einn úr hópnum að ganga örlítið afsíðis án skíða til að létta af sér vatni. Skyndilega heyrðist óp og hópurinn var svolitla stund að átta sig. Hann hafði fallið í gegnum ísinn og hendurnar einar héldu honum frá því að fara í gegn. Það tók nokkrar sekúndur fyrir hópinn að átta sig á hvað hafði gerst en fljótt voru þrír aðilar lagðir af stað í áttina að honum. Einhver kallaði, „enginn án skíða” og það reyndust þörf orð því það var ljóst að líkurnar á þvi að falla niður í gegnum ísinn voru mun meiri með engin skíði á. Allt fór þó vel að lokum og við náðum honum upp úr ísnum en hann hafði blotnað upp að mjöðmum. Eftir fataskipti var hann þó orðinn fífldjarfur aftur og af stað var haldið.

Síðar um daginn héldum við af hafísnum og inn í dal á lítilli eyju sem áætlað var að ganga eftir og tjalda við mynni hans. Það myndi vera síðasti náttstaðurinn áður en við héldum alla leið til Kuummiit. Það var smá kvíði í hópnum þegar við gengum inn dalinn vegna þeirrar hættu að ísinn við enda hans væri kannski alls ekki lagður. Þegar við vorum komin rúmlega hálfa leið inn dalinn blasti við útsýnið út á hafið. Þvílíkt áfall. Hafið var ófrosið og því var þetta lokuð leið. Því var ákveðið að snúa við og tjalda við hinn enda dalsins, enda var þar ákjósanlegur staður á föstu landi. Ákveðið var að reyna annan dal sem gekk í austur frá hinum dalnum í þeirri von að sú leið væri fær. Um kvöldmatarleytið fóru tveir í hópnum þann dal til enda til að kanna aðstæður. Aftur voru það neikvæðar fréttir. Sú leið var líka ófær þar sem ísinn var alls ekki lagður. Hringt var í Jóa í Kulusuk til að fá ráðleggingar. Hann hafði síðan samband við Íslending í Kuummiit, Sigurð að nafni. Í kjölfarið komumst við að því að eina leiðin sem var fær var mun austar, eða um það bil 40 km auka krókur og einungis þrír dagar til stefnu þar til flogið var til baka. Eftir miklar hrókasamræður innan hópsins var ákveðið að freista þess að fá bát frá Sigurði í Kuummiit til að sækja okkur daginn eftir. Ekki voru allir jafn sáttir við þá ákvörðun þar sem margir vildu klára vegalengdina á „eigin fótum”. Að lokum sættist hópurinn á þetta þar sem hægt var að taka nettar dagsferðir frá Kuummiit næstu tvo daga. Undirritaður var þó frekar jákvæður í garð þessarar ákvörðunartöku þar sem hælsærið var orðið svo slæmt á þessum tímapunkti að erfitt var að ganga sökum kvala.

Ísbjörn veldur usla

Morguninn eftir, 1. apríl, var reynt að ná í Sigurð í Kuummiit til að ákveða stað og tíma fyrir bátinn að sækja okkur. Þá höfðu aðstæður heldur betur breyst. Ísbjörn hafði sést í nágrenni bæjarins og allir bæjarbúar sem vettlingi gátu valdið rokið af stað til að veiða dýrið og þar með enginn til staðar til að sækja okkur. Sigurður sjálfur hafði fest bátinn sinn í hafís við Kulusuk og því var hann ekki aflögufær. Það var alveg ótrúlegt hvað einn ísbjörn gat haft mikil áhrif á lítið þorp í veiðimannasamfélagi. Bærinn hafði í raun tæmst því mikill fengur er í því að veiða ísbjörn á Grænlandi. Sá sem fyrst sér ísbjörninn fær feldinn á dýrinu og sá sem fellir dýrið fær kjötið á öðru lærinu og svo er dýrinu skipt á milli allra annarra sem hjálpa til eftir ákveðnum gömlum hefðum.

Það voru því ekki margir kostir í stöðunni fyrir okkur. Við gátum hangið hér og freistað þess að bátur kæmi að sækja okkur á næstu tveimur dögum, sem var alls ekki víst, eða við gátum drifið okkur af stað og freistað þess að ná til Kuummiit á tveimur dögum. Eðlilega var það síðara ákveðið og við gengum af stað um hádegisbilið. Stefnan var tekin á Ikaasak fjörð þar sem möguleiki væri á að hann væri lagður og það mundi spara okkur 15 km göngu ef svo væri. Nú var þetta spurning um tíma, flugið heim eftir þrjá daga og a.m.k. tvær dagleiðir til Kuummiit og þaðan áttum við eftir að redda okkur til Kulusuk, annaðhvort með þyrlu eða bát. Ferðin gekk nokkuð vel þennan dag en síðla dags fór að bera á mun blautari snjó en við vorum vön. Eftir því sem nær dróg Ikaasak firði varð færðin þyngri og að lokum vorum við farin að ganga á ca. 3 – 5 cm djúpu vatni ofan á ísnum. Þetta gat ekki boðað gott. Eftir dágóða stund stöðvar fremsti maður og nokkrir aðrir sem á eftir voru ná honum í kjölfarið og stöðva við hlið hans. Ástæðan var einföld, fyrir framan okkur var Ikaasak fjörður og það sem meira var – vakir um allt. Einnig var ljóst að því fleiri sem gengu í förum fremsta manns, því dýpra sukku þeir í blautan snjó. Það var ljóst að hér yrði ekki gengið lengra því ísinn var greinilega orðinn mjög þunnur.

Í gegnum ísinn!

Á meðan fremstu menn voru að ræða hvað skyldi til bragðs taka, heyrðist skyndilega óp fyrir aftan þá. Þegar litið var við sáum við hvað einum í hópnum hafði ekki litist á blautu förin fyrir framan sig og ákveðið að fara u.þ.b. einn metra út fyrir förin. Ísinn hafði brotnað undan honum og hann hafði farið í gegn – á skíðunum og með púlkuna á eftir sér! Til allra hamingju virðist bakpokinn hafa krækst í ísinn og hélt honum á floti. Hann var einnig snöggur að setja hendurnar út, sem kom einnig í veg fyrir að hann húrraði í gegnum ísinn, með allan búnaðinn aftan í sér. Honum var snögglega réttur öfugur endi á skíðastaf sem hann gat haldið sér í. Ekki þótti ráðlegt að koma of nálægt honum og var púlkan skorin af honum áður en hún færi sömu leið í gegnum ísinn og drægi eigandann á eftir sér. Línu var komið utan um hann og með því móti tókst að draga hann upp úr vökinni, ennþá með skíðin á fótum sér. Hann var rennblautur upp að brjósti og eðlilega mjög skelfdur.

En hann var ekki sá eini sem var smeykur. Því öllum leið illa á þessum tímapunkti, vitandi að ísinn væri mjög ótraustur í kringum okkur og næsta skref gæti skilað manni í gegnum ísinn. Ákveðið var að ganga nokkra km til baka og fara vestur fyrir Ikaasak fjörð því við vissum að því vestar sem við færum, því traustari væri ísinn. Hinsvegar mundi það einnig þýða að ferðin til Kuummiit myndi lengjast að sama skapi. Stemmningin í hópnum var nú orðin nokkuð blönduð því hvergi var hægt að koma sér upp á land, því einungis snarbrattar hlíðar tignarlegra fjalla gengu upp úr sjónum í kringum okkur og því enginn staður til að tjalda. Eftir að við gengum til baka og héldum í vesturátt fór þó að létta yfir hópnum því hér var ísinn greinilega mun traustari og færðin mun betri, nánast engin bleyta í snjónum. Undirritaður var orðinn mjög slæmur af hælsærum en eftir að hafa kyngt niður heilum ósköpum af deyfilyfjum fór honum að líða bærilega.

Þetta mishapp virðist hafa gefið hópnum aukinn kraft, því það gekk mjög vel síðla dags, svo vel að ákveðið var að ganga til klukkan níu um kvöldið, eða rétt um það leyti sem tók að rökkva verulega. Þegar við að lokum slógum upp tjaldbúðum á litlum tanga við minni dals sem lá alla leið að Kuummiit, höfðum við farið 20 km og komist mun lengra en áætlað var. Því reiknuðust okkur nú einungis 15 km til Kuummiit. Það yrði þægileg dagleið daginn eftir og því ættum við að koma til Kuummiit síðla dags 2. apríl. Einnig sáum við nú í lítinn veiðikofa ekki langt frá tjaldsvæði okkar og rétt hjá okkur lágu sleðaför sem við vissum að lægju frá bænum Sermiliqaq til Kuummiit. Við vorum greinilega komin í „alfara samgönguleið” en þetta voru fyrstu ummerki um aðra en okkur sem við höfðum séð í fimm daga.

Strippað á ísnum!

2. apríl brosti við okkur með glampandi sól eins og síðustu dagar og miðaði okkur nokkuð vel áfram þennan dag. Kátt var yfir mannskapnum enda vissum við nú að við hefðum heilan dag til að koma okkur frá Kuummiit til Kulusuk. Eftir hádegi var veður orðið svo gott að sumir hverjir voru komnir úr að ofan og einn úr hópnum ákvað m.a. að skíða niður eina brekkuna nakinn! Tja, kannski ekki alveg nakinn því hann var klæddur snjóflóðaýli einum fata! Það var mikið hlegið að þessu uppátæki. Loks, um eftirmiðdaginn, sáum við fyrstu húsin í Kuummiit. Undirritaður hugsaði með bros á vör til hjúkrunarfræðings í þorpinu því sársaukinn yfir hælsærinu var nánast óbærilegur og var svo komið að hann gat hvorki borið púlku né bakpoka vegna þessa ástands og að dæla í sig verkjalyfjum virtist ekki lengur hrífa. Þannig var reyndar um fleiri því annar félagi hafði sömuleiðis neyðst til að koma púlkunni sinni yfir á aðra vegna hælsæris. Voru nú flestir með einhver núningssár en þau voru mismikil eins og gengur og gerist.

Sigurður í Kuummiit tók vel á móti okkur í þorpinu og reddaði okkur gistingu í „service huset”, þjónustuhúsi bæjarbúa þar sem bæjarbúar gátu komist í sturtu og þvottavél. Þar sváfum við á gólfinu við frekar þröngan en ágætan aðbúnað. Sumir snöruðu sér í kaupfélagið til að kaupa gos og ávexti meðan aðrir spókuðu sig um og skoðuðu magnað samfélag þorpsbúa og þó sérstaklega börnin sem voru mjög hrifin af okkur og vildu ólm fá skóflurnar okkar lánaðar (sem þau öll skiluðu síðan samviskusamlega). Við fréttum einnig að við værum fyrstu „túristar” vorsins og því kannski ekki nema von að við fengjum nokkra athygli í þessu 450 manna samfélagi. Þeir tveir verst þjáðu úr hópnum fóru til sænsks hjúkrunarfræðings og létu meðhöndla hælsærin, sem voru mjög slæm, nudd niður í kjöt og sveppir og gröftur höfðu myndast hjá okkur báðum. Fljótlega kom það í ljós að engin þyrla gat tekið allan mannskapinn en Sigurður bauðst til að skutla okkur til Kulusuk á bátnum sínum daginn eftir enda Ammassalik fjörður aldrei frosinn. Betra gat það ekki verið og því ljóst að hlutirnir voru loks að ganga upp hjá okkur.

Haldið til baka

Daginn eftir, eða að morgni 3. apríl sigldu Sigurður og félagi hans okkur til Kulusuk á tveimur bátum. Það var ótrúlegt til þess að hugsa að siglingin tók tæpa þrjá tíma á bát hans á meðan við höfðum gengið á milli þessara tveggja staða á sex dögum. Þegar við nálguðumst Kulusuk var líka ótrúlegt að sjá opið haf þar sem við höfðum gengið yfir á skíðum fyrstu dagleiðina okkar sex dögum fyrr, svona gátu aðstæður breyst. Ekki komst báturinn alla leið til Kulusuk en lagði við ísröndina, eina 8 km frá bænum. Þaðan gekk svo mannskapurinn á skíðum inn í bæinn. Veður var gott og hafði verið gengið frá gistingu hjá Jóa og Guðrúnu en þau hafa sérstakt gistihús til umráða. Bæjarlífið var skoðað og nú gafst mönnum í fyrsta skipti kostur á að komast sturtu í „service huset” bæjarins, sem sannarlega var virði lélegra sturtuaðstæðna.

Eftir að hafa sturtað sig og skipt um föt var um kvöldið farið út að borða á Hótel Kulusuk sem stendur við flugvöllinn. Jóa og Guðrúnu var boðið með sem þakklætisvott fyrir alla hjálpina sem þau höfðu veitt. Morguninn eftir var svo flogið heim og það gekk allt eftir enda stórkostlegt veður þegar við fórum á loft frá flugvellinum í Kulusuk. Þegar við hækkuðum flugið sáum við endalausa ísbreiðuna teygja úr sér í allar áttir og var hinn fullkomni endir á frábærri skíðaferð sem ætti eftir að teygja sig langt í minningarbunkann. Það var við hæfi að enda þetta með skýjabólstrum við sjóndeildarhringinn, því á morgun átti að snjóa á austurströnd Grænlands.

Hallgrímur Kristinsson
Áður birt í tímaritinu Útivist.