Vélsleðamenn í ógöngum


Aðfararnótt sunnudagsins 11. mars var kallað eftir aðstoð við leit að þremur vélsleðamönnum sem saknað var. Leitað var á svæðinu frá Lyngdalsheiði að Langjökli. Víðtæk leit hafði þá staðið yfir hjá björgunarsveitum á svæðinu og var kallað eftir liðsauka. 

Beðið var um alla tiltæka vélsleða og jeppa á 44 tommu dekkjum en veðrið á svæðinu var afar slæmt með miklu roki og snjóbyl.  Alls voru 43 hópar frá 23 björgunarsveitum við leit í þessu útkalli. Einn 44 tommu jeppi og þrír vélsleðar fóru frá okkur ásamt áhöfn.

Vélsleðamennirnir fundust svo undir morgun við Skjaldbreið heilir á húfi. Einn sleðinn hafði bilað og veður var algjörlega afleitt. Þeir brugðust hárrétt við, bjuggu til skjól úr sleðunum og létu þar fyrir berast. Þeir voru með NMT síma en voru svo óheppnir að eldingu hafði slegið niður í háspennulínur á milli Kolviðarhóls og Geitháls með þeim afleiðingum að ekkert NMT samband var á svæðinu. Því gátu þeir ekki látið vita af sér.

  

Skildu eftir svar