Reykjavíkurborg styrkir björgunarsveitir í Reykjavík

Jón Gnarr, borgarstjóri og fulltrúar björgunarsveita í Reykjavík undirrituðu í dag styrktarsamning. Björgunarsveitirnar sem um ræðir eru Björgunarsveitin Ársæll, Björgunarsveitin Kjölur, Flugbjörgunarsveitin í Reykjavík og Hjálparsveit skáta í Reykjavík.

Samningurinn er til þriggja ára og mun Reykjavíkurborg styrkja björgunarsveitirnar um 10 milljónir árlega til að styðja við rekstur á samningstímanum. Samtals nemur styrk fjárhæðin 30 milljónum króna og er hún greidd óskipt til styrkþega og skulu þeir sjá um að skipta styrknum á milli sín skv. sérstöku samkomulagi þar um.

Jón Gnarr, borgarstjóri, sagði við undirritun samningsins í dag að það væri afar mikilvægt að styðja við bakið á björgunarsveitunum. Liðsmenn sveitanna séu boðnir og búnir að leggja sjálfan sig í hættu til þess að koma öðrum til bjargar og það væri bæði aðdáunarvert og þakkarvert.

Meðfylgjandi er mynd sem tekin var að lokinni undirritun í dag. Frá vinstri: Haukur Harðarsson, sveitarforingi hjá Hjálparsveit skáta, Þorsteinn Ásgrímsson Melén, Flugjbjörgunarsveitinni í Reykjavík, Jón Gnarr borgarstjóri, Hrund Jörundsdóttir, formaður Björgunarsveitarinnar Ársæls og Brynjar Már Bjarnason, formaður Björgunarsveitarinnar Kjalar.

Undirskrift Bjorgunarsveita Reykjavikur 3