Páskaferð FBSR 2003

Páskaferð var lengi í undirbúningi og leit framan af út fyrir mjög góða mætingu, allt upp í 26 manns.

Eftir því sem ferðin nálgaðist fækkaði nú samt áhugasömum af ýmsum ástæðum og gerðist það meira að segja að ferðin klofnaði og nýliðar fóru norður í land. Ekki verður hér sagt frá þeirra ferð….

Stefnt var á Vatnajökul, nákvæmlega í Esjufjöll. Þaðan var ætlunin að fara í Grímsvötn og síðan til baka í Jöklasel. Þar sem snjóaði lítið í vetur og upplýsingar á þann veg að ekki var ráðlagt  að fara upp Breiðamerkurjökul var ákveðið að fara á miðvikudagskvöldinu alla leið upp í Jöklasel við Skálafellsjökul.

Lagt var af stað frá húsi FBSR 16. apríl kl. 19.30. Það voru 9 röskir ferðamenn sem lögðu af stað með fullt af mat, búnað til að skíða, klifra og tjalda og síðast en ekki síst góða skapið. Þeir voru á 4 bílum: fisksalabíll með kerru og tveimum sleðum, FBSR-5, öðru nafni fallhlífahópsbíllinn „red neck”, FBSR2 (Toyota LandCruiser) og einkajeppinn hans Jóns (Toyota á 44").

Ferðalangarnir voru eftirfarandi: Jói og Arnar Már ætluðu að ferðast á sleðum, Maggi A. og Hallbjörn komu á jeppum þar sem snjóbíllinn var bilaður, Konni ætlaði að prufa með Snorra „red neck” en Snorri forfallaðist því miður á síðustu stundu, Jón S. kom með bróður sínum Bjarna á einkabíl, Andrea fór með til þess að það væri allavega ein kona með til að stjórna þessum strákum og ekki mátti vanta nýliða til að níðast á og láta þjóna sér, það var aumingja Ásgeir sem var með rifna hásin eftir skíðagönguferð.

Á leiðinni austur var stoppað á Hvolsvelli til að fá sér kvöldmat en búið var að loka eldhúsinu þegar síðustu 2 sniglabílarnir komu loksins á staðinn. Gátu þeir fengið pylsur. Á Vík var einnig stoppað til að setja bensín á bílana en sjálfsalinn virkaði ekki svo við kölluðum á umsjónarmann sem lagaði þetta. Aftur þurfti að stoppa til að setja bensín á fisksalabílinn á Freysnesi. Var nú prófuð aðferðin þar sem lofti er pumpað í tunnu og dælt síðan í tankinn með slöngu. Gekk það prýðilega, nema að mati hans Konna sem var allur ataður út í bensíni… loks var komið að afleggjaranum upp að Jöklaseli. Þaðan átti var eftir að keyra upp eftir. Bara?! Það var þykkasta þoka og rigning og  gekk mjög hægt að finna veginn. Þurfti að skríða upp leiðina og tók það óralangan tíma. Bjarni var með hausinn út um hliðargluggann til að sjá eitthvað og munaði litlu í nokkur skipti að bíll færi útaf og er það ekki mjög heppilegt þar sem það er mjög bratt fram af. Í einni brekkunni var síðan ís þannig að fisksalabíllinn með kerruna og ekki á nagladekkjum komst ekki lengra og var reynt að leggja honum. Það tók góðan tíma að koma honum þannig fyrir að hann myndi ekki vera fyrir og rann hann alltaf til. Það dugði ekki annað en að setja spotta í FBSR2 og draga hann á góðan stað. Var einnig mikil rigning þetta kvöld og voru allir blautir nema Andrea sem hreyfði sig ekki undan stýrinu og lét hina um verkin.

Svo var eftir að keyra upp í skálann þar sem átti að gista. Vou menn ekki sammála um hvaða leið átti að fara og voru upplýsingar sem fengust villandi þar sem skálavörðurinn gat ekki ákveðið sig hvort beygja þyrfti til vinstri eða hægri frá veginum. Var Arnar Már með allt á hreinu og tók stjórnina loksins í sínar hendur til að koma öllum á rétta slóð. Ekki var erfitt að keyra upp að skálanum og vorum við komin í dagsbirtu um kl. 7. Fengu menn sér smá morgunmat áður en þeir lögðu sig til ca. kl. 11.

Nú hófst nýr dagur eftir annan morgunmat. Var fyllt á tankana og hleypt meira úr dekkjum og lagt fljótlega af stað eftir að hafa fengið fleiri upplýsingar um leiðina. Ásgeir var settur í það að flytja GPS punkta á milli tækja og var síðan allt tilbúið til að leggja í hann. Ekki hafði veðrið skánað þannig að það var áfram þoka en þó ekki rigning. Færið var ótrúlega gott. Miklu betra en menn áttu von á og gekk allt eftir planinu. Meira að segja veðrið lagaðist þannig að það fékkst stórkostlegt útsýni á Karl og Kerlingu. Þar var farið niður brekku og var skipst á að keyra. Halli yfirgaf Redneck til að sýna kúnstirnar sínar á skíðum og tókst Konna þá að affelga bílinn……

Loksins var eitthvað að gerast! Menn stukku  út og fóru að ræða málið. Bíllinn tjakkaður upp og dekkið tekið af. Það átti að reyna aðferðina sem Gummi var nýbúinn að kynnast. Moka á holu í snjó, ýta felgunni ofan í og pumpa lofti í á meðan dekkið hangir á brúnum holunnar. Konni sem þóttist vera þyngstur stóð ofan á felgunni. Ekkert gekk, alltaf lak loftið fram hjá. Andrea fór með Konna ofan á dekkið en ekki lagaðist það. Fólk klóraði sér í höfðinu. Það var stungið upp á að nota olíutunnu til að ýta jafnar á dekkið en allir voru of tregir til að taka hana út úr bílnum. Það þótti allt of mikið mál. Það endaði nú samt með því að hún var dregin út og dekkið lagt ofan á hana. Það tók ekki langan tíma þangað til það var búið að redda málinu. Veðrið var farið að lagast heilmikið og komin var sól. Sleðamennirnir komu til okkar þar sem þeir uppgötvuðu við Esjuskála að Andrea væri með lyklana að skálanum!?

Síðan var ferðinni haldið áfram. Það var greinilegt að það var seint liðið á veturinn og ekki búið að snjóa mikið. Það voru margar litlar sprungur sem við keyrðum yfir og færið frekar blautt enda var í lok dagsins búið að draga bíla fram og til baka upp úr krapapyttum.  Halli hékk aftan í bílnum en Jóni leiddist að keyra hægt og ekki þýddi að hanga aftan í hinum bílunum sem höfðu nóg að gera með að halda sér á ferð. Þannig að hann gafst bráðum upp á þessu.

Á meðan greip Andrea tækifærið til að prufukeyra Redneck. Eins gott að Snorri frétti ekki af því þar sem honum finnst konur ekki hafa erindi í að keyra bíl heldur að halda sig frekar í eldhúsi…

Eftir langa keyrslu tókst Halla að affelga Redneck. Það var í miklum hliðarhalla og var klukkan orðin það margt að fólk vildi bíða til morguns með að bjarga þessu. Jói og Arnar voru á fullu að keyra dót og fólk upp að skála sem var rétt hjá en upp „snarbratta” brekku eins og sumir letingjar vildu kalla það. Allir voru fegnir og var nú lagt í eldamennsku og sögustund.

 Á föstudaginn langa fór fólk seint á fætur og smíðuð voru einhver plön, hvað ætti að gera þennan dag. Sleðakarlarnir vildu fara upp í Grímsvötn. Jeppafólkið átti eftir að koma dekkinu á aftur og var ætlunin að keyra áleiðis upp í Grímsvötn með Redneck til að stytta ferðina daginn eftir. Það átti nú strax að nota nýju aðferðina til að setja loftið í dekkið en ekki gekk það eftir. Það tók nokkrar klukkustundir að koma blessuðu dekkinu á. Þá fannst mönnum nokkuð vonlaust að komast eitthvað á Redneck í þessu blauta færi sem lagaðist ekki í sólskininu sem komst í gegnum skýjin á köflum. Maggi og Andrea settu nú skíðin undir til að skoða umhverfið á meðan hörðustu jeppakarlarnir ætluðu að reyna að keyra að skálanum.

Það er mjög skemmtilegt lón rétt hjá sem skíðagarpar fóru að skoða. Kitlaði aðeins taugarnar þegar maður skíðaði niður að því og var rifjuð upp Grænlandsferð þar sem mikið var um opið vatn. Þetta gekk allt vel og var miklu minna mál að skíða niður en á horfðist í fyrstu.  Á meðan voru jepparnir ennþá í sömu brekku, nefnilega neðst. Þegar til baka var komið var einn bíll kominn áleiðis upp fyrstu brekkuna með því að spila sig upp. Mikla tæknikunnáttu þurftu þessir strákar að nota og var ofsalega gaman hjá þeim. Kvenmaðurinn gat nú ekki skilið það og ákvað að taka læri og fleira til að fara að byrja á grillinu. Var Konni hetja þá þegar búinn að labba upp í skálann með læri og kók.

Matti í Kjötsmiðjunni var búinn að útvega læri sem voru kryddlegin. Þrjú læri sem áttu að duga fyrir 20 manns! Andrea fór í það að úrbeina það fyrsta eftir leiðbeiningum frá Matta. Það gekk ótrúlega vel með litlum svissneskum vasahníf en hún ákvað samt að láta það duga og pakka hinu lærinu með beini í álpappír. Það þriðja átti að grilla seinna í ferðinni. Rétt á meðan Konni kveikti í kolunum kom gestur, nefnilega rjúpa. En þar sem við vorum þegar með nóg af kjöti fékk hún að vera í friði. Þegar lærið var komið á, uppgötvaðist að gleymst hafði að taka meðlæti og appelsín. Fór  Andrea aðra ferð á skíðum til að ná í það þar sem jepparnir voru enn í sömu brekkunni. En þeir voru komnir fyrir ofan hana og gekk nú miklu betur þar sem hitt var næstum því flatlendi miðað við fyrstu brekkuna. Eftir var síðasta brekkan að skálanum og var komin aftur svo mikil þoka að þeir sáu ekki skálann þótt vel heyrðist í röddum. En ekki gekk það eftir að Konni og Andrea fengju að borða lærin ein. Hinir komu í tæka tíð, meira að segja sleðamennirnir skiluðu sér fyrir matinn. Þeir voru búnir að ferðast í blindþoku upp á Grímsfjall þar sem þeir hlustuðu á ævintýrasögur frá Hlyn skáta. Ekki fóru þeir í gufubað, það vantaði sætar stelpur þannig að þeir vildu frekar hitta Andreu aftur!!

Lærið smakkaðist æðislega vel og tók það ekki langan tíma fyrir níu manns að klára bæði. Síðan voru grillaðir bananar með súkkulaði og rjóma í eftirrétt. Fljótlega lögðust svo allir útaf og sofnuðu.

Þá var kominn laugardagur, 19. apríl, afmælið hennar Andreu. Hún var búin að lofa afmælisköku og var ákveðið að borða hana (kökuna, ekki Andreu) í morgunmat þar sem hópurinn mundi líklegast splittast upp. Ekki var hún lengi að baka rjómatertu með alvöru rjóma. Það tók enn minni tíma að borða hana. Svo var pakkað saman og gengið frá skálanum. Sleðamennirnir ætluðu að fara aftur upp í Jöklasel þar sem kerran og fisksalabíllinn voru skilin eftir.

Jeppaferðalangar sáu sér ekki fært annað en að fara niður Breiðamerkurjökul. Þar var jeppahópur búinn að fara daginn áður og áttum við bara að geta fylgt förunum. Hittast átti í Skaftafelli og ákveða þar hvað gera skyldi sunnudag og mánudag.

Veðrið var frábært: Glampandi sól og logn og strákarnir ekki lengi að koma sér úr að ofan. Prinsessan naut sín og mundi allt í einu af hverju hún gekk akkúrat í Flugbjörgunarsveitina; fæstar stelpur, flestir vöðvar!

Allir nutu sín að fara niður brekkuna frá skálanum, hvort sem var í flottum telemark stíl, á slöngu, á jeppa eða sleða, það var bara mjög mikið fjör!!

Færið var enn búið að þyngjast ef eitthvað var. En þar sem var keyrt niður í móti, gekk vel og gekk allt vel í dágóða stund. Það voru einhverjar sprungur sem þurfti að keyra yfir og poppaði nokkrum sinnum eitt dekk niður en gekk áfallalaust að keyra upp úr aftur. Svo versnaði bleytan og jukust krapapyttir meira og meira. Eitt skipti var FBSR-2 orðinn svo fastur að þegar reynt var að draga hann upp með Redneck, slitnaði bandið og beyglaðist afturhurðin, bílnúmerið og brotnuðu þrjú ljós. Þótti mesta mildi að enginn slasaðist.

Var Jón settur fremstur á 44 tommum. En það kom meira að segja að því að hann var lengi að komast í gegnum krapa þótt mokað væri á fullu. Reyndi síðan FBSR-2 að komast sömu leið en gekk það alls ekki og finna þurfti aðra leið sem síðan fannst góðan spotta neðar á jökli. Voru förin nú að verða ógreinilegri og týndust þau í smá stund alveg. Voru ferðalangarnir þá komnir að jökulruðningsrana sem var hægt að fylgja niður eftir jöklinum. Enn þurfti að keyra yfir sprungur og var ráðlegast að velja leiðina vel. Það gekk með prýði. Það kom sér vel að hafa Bjarna með sem bæði var búinn að baka fullt af snúðum og var með góð nef til að finna leiðina.

Loks var komið að jökulrönd. Þar var búið að vara okkur við litlu vatni og steini sem sæist ekki. Það reyndist lítið mál að keyra í gegnum vatnið og fljótlega voru jeppaferðalangar komnir niður á þjóðveg.

Nú lá á að komast í sjoppu til að kaupa kók. Á Freysnesi var maður kallaður út til að afgreiða okkur þar sem nýbúið var að loka bensínstöðinni.

Það var mikill léttir. Sérstaklega var Jói glaður yfir að hafa komist í sjoppu þar sem hann var búinn að vera neftóbakslaus í tvo daga. Hann bjargaði sér með því að nota tannstöngul til að ná síðustu ögnunum út úr dósinni og síðan  lykta af dósinni. Síðustu kílometrana á sleðanum var hann búinn að festa dósina á nefið til að lifa af!

Í Skaftafelli var sæmilegt veður. Ekki var útsýni á jökul en samt allt þurrt. Síðasta lærið var grillað á gasgrillinu hans Jóns og var allt týnt til sem var hægt að borða með því. Enn ein veislumáltíð! Svo var tjaldað og rædd bílamál, ferðir og áætlanir fyrir sunnudaginn. Þá loksins fóru sleðamennirnir að skrifta og segja frá heimskubrögðum sínum. Á öðrum degi eftir að þeir sóttu lykilinn hjá Andreu, keyrðu þeir aftur upp að skálanum. Þeir settu dótið sitt í skálann og…. Skelltu óvart á eftir sér með lykilinn í skálanum!!?? Þeir fundu ekki nokkra leið til að komast inn og voru þeir lengi að spá hvað átti gera. Vandamálið var aðallega að allur búnaður þeirra var inni og hefði ekki verið nokkur leið að fara af stað illa búnir. Loks söguðu þeir lamirnar í sundur og brutust inn. Rétt áður en jeppafólkið kom. Þótti þetta of neyðarlegt til að segja frá því strax… (Þegar sagan var skráð, voru sleðamenn á leið til að laga skálann).

Svo var það páskasunnudagurinn. Allir drógu páskaeggin sín fram. Jói var með skrýtið páskaegg sem var í laginu eins og venjulegt suðusúkkulaðistykki. Andrea aftur á móti var með páskakanínu frá Sviss og beit hausinn af henni!! Quelle femme?!

Ákveðið hafði verið að fara inn í Núpsstaðaskóg þar sem fæstir höfðu komið þangað. Fisksalabíllinn var skilinn eftir við afleggjarann og lagt var af stað inn eftir. Fljótlega var komið að Núpsvötnum sem þurfti að keyra eftir. FBSR2 hikaði aðeins og var Halli strax búinn að  taka stjórnina í sínar hendur og lét vaða. Ekki virtist vera mjög mikið í. Keyrt var áfram eftir slóð sem greinilega var búið að hefla fyrir stuttu. Hún lá beint að ánni Súlu og sást leið upp úr hinumegin. Ekki leyst fólki á blikuna. Mikið vatn var í ánni og var stoppað til að skoða leiðina betur. Litlu munaði að lagt væri af stað yfir þegar Andrea fór allt í einu að hafa bakþanka hvort það þyrfti nú að fara yfir Súluna. Hafði hún komið inn í Núpsstaðaskóg síðasta haust og gat ekki munað eftir að hafa farið yfir Súlu. Var ákveðið að skoða fyrst  ofar hvort þess þyrfti í raun. Kom strax í ljós að þar var önnur slóð og þurfti náttúrulega alls ekki fara yfir Súlu?! Þessir leiðsögumenn??? Eða konur eins og Snorri mundi segja?!

Svo var komið að bílastæði og lagt af stað í gönguferð. Voru fremstu að flýta sér til að þurfa ekki að hlusta á vælið í þeim síðustu sem vildu frekar keyra en labba, en það var ekki lengi því svæðið er náttúrulega stórkostlegt. Sást í hvítan rebba í einu gili, skoðaður fossinn og labbað aftur til baka. Var þá enn og aftur stoppað til að borða nesti og reyndu menn nú að koma öllum sínum mat út áður en farið væri í bæinn. Sérstaklega vildi Ásgeir koma sínum mat út þar sem hann er svo vel giftur og á konu sem var búin að elda handa honum mat fyrir heila viku. Hvernig liti það út að koma með það til baka?…

Jæja, svo var fólkið bara búið að gefast upp á færinu og vildi komast í bæinn. Enda voru bílarnir líka hálf kraft- og saftlausir. Var skrifaður listi á leiðinni yfir hvað þyrfti að gera fyrir flubbóbílana og kláraðist  það rétt áður en komið var í hús FBSR.

Skrifað í maí 2003
Andrea Maja Burgher (hin svissneska)

 

Skildu eftir svar