Fjölskyldujeppaferð FBSR 2013

Á kosningardaginn 27. apríl var farið í jeppaferð, með í för voru 6 einkabílar og patrolinn FBSR 5 frá Flugbjörgunarsveitinni í Reykjavík. Alls fylltu 24 manns og einn hundur þessi farartæki. Til stóð að keyra frá Reykjavík um kl. 09.00 og vera komin í Skálpanes um eða eftir hádegi, grilla kjöt og pulsur þar í grennd, leyfa börnunum að renna sér aðeins og leika í snjónum, keyra síðan í bæinn. Þetta var áætlunin í grófum dráttum en að sjálfsögðu stóðst hún engan vegin enda teldist þetta vart alvöru jeppaferð FBSR ef við hefðum haldið áætlun. 

Við keyrðum á Þingvelli og inn Kaldadal, þegar við vorum komin að snjólínu hleyptum við hóp af Ísak bílum framhjá okkur. Þar sem sumir voru byrjaðir að spóla var hleypt aðeins úr dekkjunum líka. Eftir skamma stund voru Ísak-jepparnir fyrir framan okkur fastir og við þurftum því að bíða. Þá settum við FBSR 5 í 8 pund en ekki leið á löngu áður en þurfti að spila nokkra bíla. Fórum svo niður í 4 pund og gekk ágætlega þó nokkurn spöl nema hvað ákveðin L200 var alltaf að grafa sig eitthvað niður.

Þegar við náðum loks í litla kofann við línuveginn á Kaldadal um þrjú leytið, var orðið heldur hvasst svo það var bara huggulegt að troðast þarna inn og allir mjög sáttir að fá eitthvað ofan í tómann magann. Þar voru valkostirnir um heimleið ræddir og ákveðið að fara á Geysi þar sem Sverrir og krakkarnir gætu fengið sér ís. Eftir síðasta brattann var pumpað í dekkin og Kjalvegurinn keyrður niður að Gullfossi en þegar komið var á Geysi var búið að loka sjoppunni. Þá skelltum við bara í hópmynd og héldum svo heim á leið. Það verður ekki sagt að veður og útsýni hafi leikið við okkur en sólin lét nú alveg sjá sig inná milli og við fengum heldur betur að spila bíla og sumir Candy Crush. Flott ferð og mannskapurinn kom ánægður heim!!!

no images were found

 

Texti og myndir: Salbjörg Guðjónsdóttir

no images were found