Leit að spænskum ferðamanni að Fjallabaki

Víðtæk leit var gerð að spænskum manni sem hugðist ganga frá
Hrafntinnuskerjum suður að Álftavatni en hafði ekki skilað sér þangað.
Hann reyndist hafa gist á Kirkjubæjarklaustri.

Klukkan þrjú að morgni miðvikudagsins 3. ágúst barst útkall frá
svæðisstjórn á svæði 1 vegna hjálparbeiðnar frá svæðisstjórn á svæði
17. Þar höfðu björgunarsveitir frá Hellu, Hvolsvelli og nágrenni, auk
leitarhunda, verið við leit frá því kvöldinu áður að spænskum
ferðamanni sem saknað var. Hann hafði gist í Hrafntinnuskerjum og var
búinn að bóka pláss í skálanum við Álftavatn næstu nótt og í Emstrum
þar næstu nótt. Þegar hann hafði ekki skilað sér í tíma að Álftavatni
var farið að óttast um hann enda veðrið allt annað en ákjósanlegt til
göngu, þoka, rigning og 4 stiga hiti. Frá Flugbjörgunarsveitinni fóru
tveir bílar með 10 menn til leitar á svæðinu og tveir fulltrúar í
svæðisstjórn.

Um 100 björgunarmenn auk þyrlu Landhelgisgæslunnar TF-SIF voru að
kemba svæðið frá Landmannalaugum að Álftavatni og á líklegum stöðum í
grennd þegar maðurinn komst í leitirnar austur á Kirkjubæjarklaustri,
en þar hafði hann gist þá um nóttina. Í ljós kom að í stað þess að
halda áfram að Álftavatni hafði hann ákveðið að breyta ferðaáætlun en
upplýsingar um það lágu ekki fyrir.

Leit var því afturkölluð laust upp úr hádegi en Flugbjörgunarsveitin
fékk svo það verkefni á heimleiðinni að flytja eldsneytisbíl
Landhelgisgæslunnar frá Hvolsvelli til Reykjavíkur.

 

Skildu eftir svar