Jónsmessa hjá beltamönnum sumarið 2003

Sólstöðuhelgina 21.-22. júni fóru tveir meðlimir beltaflokks á Langjökul til að hrista aðeins úr sér slenið eftir langan tíma á malbikinu. Voru þetta undirritaður Arnar Bergmann ásamt Jóhanni S. Sveinssyni þ.e. nýju gaurarnir í beltaflokki.

Planið var að fara í dagsferð á sunnudeginum en þegar við hittumst á laugardagskvöldið til að græja sleðana var veðrið svo flott að við drifum okkur bara strax úr bænum. Var stefnan tekin á Jaka, skála Íslenskra Ævintýraferða ofan Þjófakróka við vestanverðan Langjökul. Er við keyrðum í hlað í rjómablíðu um þrjúleytið aðfaranótt sunnudags og fórum að græja okkur  uppgötvaði ég mér til skelfingar að kassinn af sleðanum mínum hafði gleymst  í bænum. Upphófst þá mikil leit að blóraböggli og eftir skamma umhugsun ákvað ég að skella skuldinni á félaga vorn Hallbjörn “Björninn” Magnússon en hann hafði einmitt hringt í mig um það leyti  sem ég var að ganga frá kassanum (he, he, he). En við héldum okkar striki og lögðum á jökul um 03.30, var stefnan sett á Geitlandsjökul til að byrja með og yfir að Presthnjúk.
Þegar við vorum búnir að kanna svæðið í nágrenni Geitlandsjökuls og dást aðeins að útsýninu þarna uppi var ákveðið að keyra í átt að Þursaborg og Fjallkirkju enda löngu kominn háttatími hjá öllu venjulegu fólki. Keyrðum við sem leið lá yfir hábungu jökulsins en gekk hægt þar sem jökullinn var frekar ósléttur. Þegar við komum að Þursaborg var tekið stutt myndastopp ofan í geilinni áður en haldið var í skálann í Fjallkirkju til að hvílast. Vorum við komnir um 07.00 í skála og orðnir ansi þreyttir.

Eftir smá kríu, sem reyndar teygðist á langinn, var haldið til baka í Jaka með smá stoppi við Pétursborg. Vorum við svo komnir í bílinn um 16.30.

Þá var haldið heim á leið og menn sáttir eftir frábæra ferð á jökul.

Arnar Már Bergmann
Beltaflokki FBSR

 

Skildu eftir svar