Bíll ofan í sprungu á Hofsjökli

Um hálf fjögur leytið barst ósk um að undanfarar gerðu sig klára í þyrlu. Bíll hafði fallið ofan í sprungu í Hofsjökli. Varnarliðsþyrlurnar höfðu þá verið sendar af stað, ásamt einni þyrlu af dönsku herskipi sem stödd var við landið.

 

Undanfararnir voru beðnir um að bíða klárir ef þyrla Landhelgisgæslunnar færi í loftið og yrðu þeir þá sendir með henni. Hlutverk þeirra yrði að fylgja lækni, vera honum innan handar og sjá til þess að hann kæmist ofan í sprunguna ef með þyrfti. Það fór svo að þyrlan fór aldrei af stað þar sem björgunarlið sem fyrst var sent á slysstað gat valdið verkefninu án frekari aðstoðar.

Rétt eftir klukkan 18 barst útkall frá Svæðisstjórn þar sem beðið var um jeppa og snjóbíla til að fara á staðinn og fóru frá okkur 9 menn á tveimur jeppum. Þeir voru ýmist í verkefnum eða á bið við stjórnsstöð í Hrauneyjum og komu aftur til Reykjavíkur um klukkan 2:30 í nótt.

Eins og fram hefur komið í fréttum þá lést annar þeirra sem í bílnum voru og hinn liggur nú þungt haldinn á spítala. Viljum við í Flugbjörgunarsveitinni votta þeim sem um sárt eiga að binda samúð okkar.

Meðfylgjandi mynd er úr myndasafni og er ekki af slysstað.

Skildu eftir svar