Á leið yfir jöklana 3

Mynd/Yfir jöklana 3 - Ferðafélagar á Brúarjökli um helgina. Óskar er fyrir miðju myndarinnar.

Mynd/Yfir jöklana 3 – Ferðafélagar á Brúarjökli um helgina. Óskar er fyrir miðju myndarinnar.

Óskar Davíð Gústavsson, félagi í FBSR, er nú ásamt þremur öðrum félögum sínum á ferð frá austri til vesturs yfir þrjá stærstu jökla landsins á gönguskíðum. Með þessu feta þeir í fótspor sex félaga úr FBSR sem fóru sömu leið fyrir 40 árum, en það var svo sannarlega gríðarlegt þrekvirki á þeim tíma. Áætlaður ferðatími er um 2 vikur, en leiðin er í heild áætluð um 350-400 kílómetrar.

Heimasíða ferðarinnar – Yfir jöklana 3

Ásamt Óskari eru það þeir Hallgrímur Örn og Hermann Arngrímssynir og Eiríkur Örn Jóhannesson sem fara þessa flottu leið. Eru þeir allir meðlimir í Hjálparsveit skáta í Garðabæ.

Ferðin hófst á Fljótsdalsheiði og var fyrsti náttstaðurinn í Laugafellsskála á laugardagsnóttu. Þaðan lá leiðin í Snæfellsskála og svo upp á Brúarjökul í austanverðum Vatnajökli. Eru þeir nú á ferð yfir miðjan Vatnajökul á leið sinni til Grímsfjallaskála. Fylgjast má með ferð þeirra samkvæmt spot tæki hér. 

Frá Grímsfjallaskála er áætlað að ganga niður í Nýjadal og þaðan að Þjórsárjökli í Hofsjökli og yfir jökulinn og niður í Hveravelli. Frá Hveravöllum verður farið yfir Langjökul og niður Geitlandsjökul.

leic3b0in

Árið 1976 þegar sama ferð var farin áður var búnaðurinn allt öðruvísi en í dag. Ekki var í boði að vera með GPS tæki, gore-tex, sérhæfð gerviefni eða annað álíka heldur þurfti að reiða sig á landakort og áttavita. Í þá ferð fóru þeir Rúnar Nordquist, Þorsteinn Guðbjörnsson, Arngrímur Hermansson, Hjalti Sigurðsson, Jóhannes Ellert Guðlaugsson og Þór Ægisson.

Eru þeir Hallgrímur og Hermann synir Arngríms sem fór fyrri ferðina og Eiríkur er sonur Jóhannesar sem einnig fór þá ferð. Þá er Óskar frændi Hermanns og Hallgríms og þegar hann var í nýliðaþjálfun hjá FBSR var það Rúnar sem var leiðbeinandinn hans.

Sjá má fjölda mynda og lesa um núverandi ferð og ferðina árið 1976 á heimasíðunni Yfirjöklana3 

FBSR óskar ferðafélögunum áframhaldandi góðrar ferðar í þessari miklu ævintýraferð.