Greinasafn fyrir merki: Leitarflokkur

Leitarhundaheimsókn í Vogaskóla

Föstudaginn 22. nóvember hélt hundaflokkur FBSR kynningu fyrir 8. og 9. bekk í útivistartíma í Vogaskóla um störf leitarhunda. Þóra J. Jónasdóttir var fulltrúi flokksins, ásamt leitarhundunum Söru og Syrpu og hinni 12 vikna gömlu Mirru sem er að hefja þjálfun.

Heimsóknin hófst með stuttu erindi frá Þóru en þar á eftir fengu krakkarnir að sjá leitarhundana að störfum. Ein úr nemendahópnum snerti pappírsþurrku áður en hún og vinkona löbbuðu úr skólanum og var pappírsþurrkan svo notuð sem lyktarsýni fyrir FBSR Söru, sporhund í þjálfun. Sara rakti sporin alveg heim til hennar, með 16 börn og einn kennara á hælunum.

Eftir þetta fengu tvö pör af krökkum að fela sig í trjánum í Elliðaárdalnum og FBSR Syrpa víðavangsleitarhundur leitaði þau uppi hvert af öðru. Krakkarnir voru mjög hrifnir af getu leitarhundanna og varð þeim ljóst að það þýðir ekkert að laumast úr skólanum þegar Syrpa og Sara eru á vakt.

Í dag er Syrpa ein með útkallsréttindi í hundaflokki FBSR en fimm hundar til viðbótar eru í þjálfun. Syrpa er fullþjálfuð í snjóflóðaleit og víðavangsleit (A próf) og Rökkvi og Lúna eru í þjálfun á sömu sviðum (C próf). Þá er Sara í þjálfun í sporrakningum og snjóflóðaleit (C próf) og Lindor í sporrakningum. Svo er það Mirra litla sem hóf nýlega þjálfun í víðavangsleit og snjóflóðaleit en þess má geta að það tekur um þrjú ár að fullþjálfa leitarhunda.

Mynd að ofan: Nemendur ásamt leitarhundum og Einari Pétri, kennara og félaga í FBSR (Þóra J. Jónasdóttir).

Myndir að neðan: Nemendur að leik og hundar að störfum (Fanney Björg, 8. bekk í Vogaskóla)