Landmannalaugar 2015

Rúmlega 50 manna hópur frá Flugbjörgunarsveitinni í Reykjavík hélt í árlega Landmannalaugaferð síðustu helgi. Stór hluti fór á gönguskíðum, en einnig voru þrír sleðar með í ferð og fjórir jeppar. Farið var úr húsi föstudagskvöldið og lagði skíðagöngufólkið af stað frá veginum austan af Sultartangastöð. Var skíðað austur fyrir Tagl þar sem tjaldbúðir voru settar upp, en nokkur hríð var um kvöldið. Jeppa- og sleðafólk hélt á meðan inn í Laugar.

Á laugardaginn var fullt af allskonar hjá öllum. Gönguskíðafólk hélt áfram og var stefnan sett á Laugar, meðan jeppa- og sleðafólk keyrði um Fjallabak þvert og endilangt. Nokkrir tóku sig svo til og gengu upp og skíðuðu svo niður Bláhnúk. Slegið var upp veislu um kvöldið og grillað í mannskapinn og að vanda var svo fjölmennt í lauginni eftir matinn. Á sunnudaginn var haldið í átt að Sigöldu og keyrt í bæinn.

Allt í allt frábær ferð þar sem margir prófuðu gönguskíði í fyrsta skipti í lengri ferð, ökumenn fengu góða æfingu og hægt var að njóta Fjallabaksins stóran hluta ferðarinnar vegna prýðisskyggnis og góðs skíðafæris.

Myndir: Magnús Andrésson og Ingvar Hlynsson