Greinasafn fyrir flokkinn: Atburðir

Aukaaðalfundur – fundarboð

Kæru félagar!
 

Stjórn FBSR boðar til aukaaðalfundar þriðjudaginn 12. desember 2017 klukkan 20:00 í húsakynnum FBSR að Flugvallarvegi.

 

Dagskrá aukaaðalfundar:

  1. Formaður setur fundinn og ber fram tillögu um fundarstjóra og fundarritara. 
  2. Ársreikningur lagður fram til samþykktar 
  3. Önnur mál

Við hvetjum alla félaga til að mæta á fundinn og kynna sér ársreikninginn.

 
Stjórnin.

Hálendisvakt 2017 lokið

Í ágúst kláraði 14 manna hópur frá FBSR hálendisvakt þetta árið, en alls voru 13 einstaklingar og 1 erlendur gestur, Andrew James Peacock, frá fjallabjörgunarsveit Patterdale í norður Englandi og tveir bílar frá sveitinni á vaktinni í Nýjadal frá sunnudegi 13. ágúst og fram á aðfaranótt mánudags 21. ágúst þar sem þau fengu útkall eftir hádegi á sunnudegi fyrir heimferð sem dróst fram eftir degi. Nóg var við að vera, sjúkraverkefni, aðstoð við tilkynningar um utanvegaakstur, aðstoð við ferðamenn og allskonar bílaaðstoð. Í heildina voru skráð atvik 78 talsins og það er vel. Samstarf við landverði, skálaverði bæði í Nýjadal og Laugafelli, aðrar björgunarsveitir og lögreglu var til fyrirmyndar og þökkum við þeim vel fyrir.

Eftirtöldum fyrirtækjum er sérstaklega þakkaður stuðningurinn í sumar: Mjólkursamsalan, Grímur Kokkur, Kjarnafæði, Myllan, Ölgerðin, Nesbú og Íslensk Ameríska. Ykkar góði stuðningur gerir okkur kleift að starfa sem sterkur hópur á hálendisvaktinni.

 

Nýliðakynningar haustið 2017

Við erum að leita að öflugu fólki sem hefur áhuga á að starfa í björgunarsveit, hvort sem áhuginn liggur í fjallamennsku, jeppum, björgunarskipulagi, fyrstu hjálp, nýstárlegum leitaraðgerðum eins og drónum eða öðrum sviðum björgunarstarfs. Þann 29. og 31 ágúst verða haldnar nýliðakynningar þar sem áhugasamir einstaklingar geta kynnt sér nýliðastarf sveitarinnar, þá þekkingu og reynslu sem byggð er upp, kröfur auk félagslega þáttarins.

Flugbjörgunarsveitin í Reykjavík var stofnuð árið 1950 og hefur alla tíð horft til þess að vera leiðandi á sviði björgunarstarfa hér á landi. Sveitin sérhæfir sig í björgun á landi og má rekja stofnun hennar til þess að bæta þurfti úr sérhæfðri fjallabjörgun hérlendis.

Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar, sveitin þróast og í dag er hún byggð upp af fjölmörgum öflugum björgunarflokkum. Meðal þeirra eru fjallaflokkur, leitarflokkur, sleðaflokkur, fallhlífaflokkur, bílaflokkur auk almenns björgunarflokks.

Nýliðaþjálfunin nær yfir tvo vetur, en á því tímabili lærir fólk helstu atriðin í fjallamennsku, leitartækni, fjallabjörgun, ferðamennsku og rötun, fyrstu hjálp og að geta bjargað sér í íslenskri náttúru í hvaða aðstæðum sem er. Nýliðar sveitarinnar taka einnig fullan þátt í fjáröflunum sveitarinnar og fjölmörgum öðrum viðburðum á þjálfunartímabilinu.

Að þjálfun lokinni verða nýliðar fullgildir meðlimir og fara þar með á útkallsskrá.

Aldurstakmark 18 ára.

Fyrir þá sem hafa áhuga eru hér tenglar á Facebook viðburði fyrir kynningarnar:

Þriðjudagurinn 29. ágúst

Fimmtudagurinn 31. ágúst

Aðalfundarboð 2016

Kæru félagar.Aðalfundur FBSR verður haldinn miðvikudaginn 25. maí 2016 klukkan 20:00 í húsakynnum FBSR að Flugvallarvegi.

Dagskrá aðalfundar:

  1. Formaður setur fundinn og ber fram tillögu um fundarstjóra og fundarritara.
  2. Skýrsla stjórnar
  3. Ársreikningur lagður fram til samþykktar
  4. Inntaka nýrra félaga.
  5. Hlé
  6. Lagabreytingar
  7. Kosning stjórnar
  8. Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga
  9. Kosning tveggja í uppstillingarnefnd
  10. Önnur mál

Í hléi býður Kvennadeild FBSR upp á kaffiveitingar og kosta þær 2.000 kr. Greiða þarf fyrir með peningum.Breytingartillögur á lögum Flugbjörgunarsveitarinnar í ReykjavíkTvær tillögur að lagabreytingum bárust frá stjórn FBSR:

  • Við 16. gr. bætist: Allar lántökur félagsins umfram 5 mkr. skulu samþykktar á félagsfundi með meirihluta atkvæða. Stjórn félagsins er þó heimilt að stofna til viðskiptaskulda umfram 5 mkr. þegar um er að ræða innkaup vegna fjáraflana félagsins.
  • Breyting á 10. gr. í stað „janúarlok“ kemur „fyrir lok febrúar“. Setningin hljómar því þannig: Stjórn skal ákveða og auglýsa dagsetningu aðalfundar fyrir lok febrúar ár hvert.

Við hvetjum félaga til að mæta á aðalfundinn og hafa áhrif á þær ákvarðanir sem þar verða teknar.Stjórnin.

Heimsókn Slysavarnardeildarinnar í Reykjavík

Félagar úr Slysavarnardeildinni í Reykjavík kíktu í heimsókn til FBSR síðasta föstudag og fengu afnot af sal félagsins til að halda fund Slysavarnardeildarinnar. Þótti fundurinn takast vel, en um 30 félagar mættu og héldu sannkallaða veislu.

Þá fengu félagar í Slysavarnardeildinni stuttan túr um húsnæði FBSR þar sem aðstaða, tæki og tól voru kynnt. FBSR þakkar Slysavarnardeildinni fyrir komuna.

2016-04-29 20.33.00

2016-04-29 17.43.11

 

 

Hóphjól SL – upphaf átaks um öryggi hjólafólks

Félagar úr í Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu auk fjölskyldna fóru í dag í hjólatúr frá húsnæði Flugbjörgunarsveitarinnar við Flugvallarveg að Gróubúð úti á Granda. Er dagurinn í dag upphaf mánaðar átaks í slysavörnum reiðhjólafólks sem Slysavarnarfélagið Landsbjörg stendur að ásamt öðrum aðilum. Nokkur fjöldi var í hóphjólinu þrátt fyrir að veðurguðirnir hafi látið rigna smá í dag.

 20160501_150007_resized 20160501_150017_resized

Afmælishátíð – FBSR 65 ára

Flugbjörgunarsveitin í Reykjavík hélt upp á 65 ára afmæli sitt á laugardagskvöldið, en sveitin var stofnuð 27. Nóvember 1950 í kjölfar björgunarinnar á áhöfn flugvélarinnar Geysis á Vatnajökli það sama ár.

Rúmlega 130 manns mættu á hátíðina, sem haldin var á Hótel Natura við Reykjavíkurflugvöll, en gestir voru á öllum aldri og þeir elstu á níræðis- og tíræðisaldri og hafa starfað með sveitinni í meira en hálfa öld.

Á hátíðinni var Stefán Bjarnason gerður að heiðursfélaga, en hann gekk inn í sveitina árið 1954. Hefur Stefán setið í stjórn félagsins í fjölda ára, sinnt ýmsum ábyrgðastörfum fyrir sveitina og leiddi hann meðal annars byggingu núverandi húsnæðis sveitarinnar fyrir um 25 árum síðan og smíði fjallaskála félagsins í Tindfjöllum.

FBSR-65_311015_JON8623-11

Stefán Bjarnason, heiðursfélagi FBSR, ásamt Jóhannesi I. Kolbeinssyni, formanni.

Á hátíðinni fengu einnig eftirtaldir einstaklingar heiðursmerki sveitarinnar:

Gullmerki:
Freyr Bjartmarz
Grétar Pálsson
Jónas Guðmundsson
Sigurður Sigurðsson

Gullmerkishafar ásamt varaformanni og formanni.

Gullmerkishafar ásamt varaformanni og formanni.

 

 

Silfurmerki:
Jörundur Guðmundsson
Guðmundur Magnússon
Guðmundur Baldursson
Bergsteinn Harðarson
Kristbjörg Pálsdóttir
Þráinn Þórisson
Frímann Andrésson
Marteinn Sigurðsson
Sveinborg Hlíf Gunnarsdóttir
Arnar Már Bergmann
Guðmundur Arnar Ástvaldsson

Silfurorðuhafar ásamt varaformanni og formanni sveitarinnar.

Silfurorðuhafar ásamt varaformanni og formanni sveitarinnar. Á myndina vantar þau Guðmund Baldursson, Sveinborgu Hlíf Gunnarsdóttur og Bergstein Harðarson.

Bronsmerki:
Pétur Hermannsson
Elsa Gunnarsdóttir
Heiða Jónsdóttir
Ásgeir Sigurðsson
Eyþór Helgi Ílfarsson
Ólafur Magnússon
Steinar Sigurðsson
Jóhannes Ingi Kolbeinsson

Bronsmerkishafar ásamt varaformanni og formanni.

Bronsmerkishafar ásamt varaformanni

Er þeim þakkað mikið, gott og óeigingjarnt starf fyrir sveitina í gegnum árin.

Stofnfélagar Flugbjörgunarsveitarinnar voru 29 talsins og fyrsti formaður var kjörinn Þorsteinn E. Jónsson flugmaður. Síðan þá hafa 13 gengt því embætti og voru myndir af öllum formönnunum afhjúpaðar í tilefni af afmælinu í húsnæði sveitarinnar.

Myndir: Jón Svavarsson

Hungurleikarnir 2015

Í tilefni af afmælishátíð FBSR um helgina var haldin þrautakeppni fyrir félagsmenn á laugardaginn. Meðal annars þurfi að síga í gryfjunum í Öskjuhlíð, hita vatn á sem skemmstum tíma, sýna fram á góða rötunar- og korta þekkingu og gera allskonar þrekæfingar.

Keppnin, sem nefndist Hungurleikarnir, heppnaðist mjög vel og var skipulag þeirra Óla Magg, Billa, Bjössa, Steinars og Viktors til fyrirmyndar. Keppendur voru 21, en þar sem veitt eru aukaverðlaun fyrir stíl í keppninni voru búningar í skrautlegra lagi. Er það von FBSR að engum vegfaranda hafi verið bylt við í morgunsárið á laugardaginn þegar hann mætti síðhærðum víkingum, sjóræningjum, skátum eða öðrum uppáklæddum einstaklingum.

Gullskóinn, verðlaun fyrir besta árangurinn fékk liðið Víkingarnir

 

Sigurlið Víkinganna.

Sigurlið Víkinganna.

 

Fagurkerann, verðlaun fyrir besta stílinn fékk liðið The gang

The gang

The gang

 

Önnur lið í keppninni má sjá hér:

FBSR Lord

FBSR Lord

Woopee's

Woopee’s

Head hunters

Head hunters

 

65 ára afmæli Flugbjörgunarsveitarinnar

fbsrÍ dag heldur Flugbjörgunarsveitin í Reykjavík upp á 65 ára afmæli sitt, en það var í nóvember 1950 sem sveitin var formlega stofnuð. Kom það til í kjölfar björgunarinnar á áhöfn flugvélarinnar Geysis á Vatnajökli í september það sama ár. Voru stofnfélagar 29 og fyrsti formaður var kjörinn Þorsteinn E Jónsson flugmaður.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá, en Flugbjörgunarsveitin hefur þó alla tíð haft aðsetur við Reykjavíkurflugvöll, upphaflega í bráðabirgðahúsnæði, en seinna fékk sveitin til afnota tvo bragga í Nauthólsvík. Voru þeir aðsetur hennar þar til hún flutti í eigið húsnæði við Flugvallaveginn árið 1990.SW018

Í kvöld fer fram afmælishátíð félagsins, en þar munu bæði yngri og eldri félagar mæta og gera sér glaðan dag og rifja upp áhugaverð augnablik úr sögu félagsins.

Þá verður þess meðal annars minnst að 20 ár eru síðan fyrstu konurnar gengu inn í sveitina. Að lokum verða orður veittar félögum fyrir vel unnin störf í gegnum árin.018

Fyrr um daginn verður forskot tekið á sæluna, en þá verða haldnir leikar milli hópa í sveitinni. Keppt verður í allskonar
mögulegum og ómögulegum greinum, en að lokum kemur í ljós hvaða hópur stendur uppi sem sigurvegari. 009

Fleiri skemmtilegar myndir úr starfi sveitarinnar má sjá á Facebook síður Flugbjörgunarsveitarinnar í Reykjavík, hér.

 

Aðalfundarboð FBSR

Aðalfundur FBSR verður haldinn 20. maí 2015 klukkan 20:00 í húsakynnum FBSR að Flugvallarvegi.

Dagskrá aðalfundar:

  1. Formaður setur fund.
  2. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
  3. Skýrsla stjórnar og umræður um hana.
  4. Endurskoðaður rekstrar- og efnahagsreikningur 2014-2015, samþykktur af félagslega kjörnum endurskoðendum og umræður um hann.
  5. Inntaka nýrra félaga.
  6. Hlé – Kaffiveitingar á vegum Kvennadeildar FBSR, kr. 1.500 (í reiðufé).
  7. Lagabreytingar, umræða og kosning.
  8. Kosning stjórnar.
  9. Kosning tveggja endurskoðenda og eins til vara.
  10. Kosning þriggja félaga í valnefnd heiðursveitinga.
  11. Önnur mál.

Breytingartillögur á lögum Flugbjörgunarsveitarinnar í Reykjavík

Tillögur að lagabreytingum bárust frá stjórn FBSR. Tillögunum má skipta í tvennt:

  1. Í fyrsta lagi leggur stjórn til nýja uppsetningu á lögum FBSR þar sem ekki verður um neina innihaldsbreytingu á lögum FBSR að ræða. Ástæða þessa er til að einfalda og skerpa á uppsetningu núgildandi laga m.a. með því að sameina greinar sem eiga saman og einfalda orðalag. Heildarendurskoðun má finna hér.
  2. Í öðru lagi leggur stjórn FBSR til ýmsar breytingar á lögum sveitarinnar sem bæði taka til nýrra lagagreina og breytinga á fyrri lagagreinum. Auk þess er sérstaklega lögð fram breytingartillaga um fjölgun stjórnarmanna. Breytingartillögurnar má finna hér og sérstaka tillögu um fjölgun stjórnarmanna hér.

Núgildandi lög FBSR má finna hér. Lög FBSR.
Kynningu á heildarendurskoðun og breytingartillögum má finna hér. 

Sveitarfundur

Sveitarfundur verður haldinn 13. maí n.k. klukkan 20:00 í húsakynnum FBSR við Flugvallarveg þar sem m.a. verður farið nánar yfir innihald lagabreytingartillagnanna. Það er von stjórnar að þeir sem vilja kynna sér breytingatillögurnar sjái sér fært að mæta og að umræðan sem þar skapast geti flýtt fyrir afgreiðslu á aðalfundi.

Boðun á aðalfundi

Stjórn FBSR vekur athygli á því að á síðasta aðalfundi FBSR var samþykkt breyting á lögum þess efnis að aðalfundur er löglega boðaður ef boðað er til hans með tölvupósti, og með tilkynningu á heimasíðu FBSR með minnst 5 daga fyrirvara.

Framvegis verður aðalfundur FBSR boðaður í samræmi við þessa breytingu og því verður ekki sendur bréfpóstur á félaga FBSR nema þeir sérstaklega óski eftir því. Óskir um bréfpóst vegna boðunar aðalfundar svo og upplýsingar um tölvupóstföng, sem senda skal fundarboð á, skulu berast stjórn á tölvupóstfangið [email protected].

Við hvetjum félaga til að mæta á aðalfundinn og hafa áhrif á þær ákvarðanir sem þar verða teknar.

Stjórnin.